Íslandssaga búin að fá bát til veiða

Særif Sh kemur í róðri í gærkvöldi. Mynd: suðureyrarhofn.

Íslandssaga ehf á Suðureyri hefur náð samningum við fyrirtækið Melnes ehf á Rifi og mun bátur síðarnefnda fyrirtækisins veiða fyrir Íslandssögu næsta mánuðinn. Þetta staðfesti Óðinn Gestsson, framkvæmdastjóri  í samtali við Bæjarins besta í gærkvöldi.

það er Særif SH 25 30 tonna krókaaflamarksbátur sem mun veiða og leggja upp afla sínum til Íslandssögu og Íslandssaga mun leggja bátnum til kvóta eftir föngum auk þess að sem hann mun veiða af kvóta sínum. Særif SH 25 er beitningavélabátur. Óðinn segir að með þessu sé búið að tryggja samfellu í rekstri Íslandssögu a.m.k. næsta mánuðinn og gefst þá tími til að huga að varanlegri lausn á vanda fyrirtækisins vegna strands Einars Guðnasonar ÍS 303.

Særif SH 25 kom úr fyrsta róðri sínum hér fyrir vestan í gærkvöldi og landaði 12 tonnum, mest þorski.

DEILA