Ísafjarðarbær: verðmæti íbúða í þorpunum lægra en áhvílandi skuldir

Frá Suðureyri. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Fasteignamat íbúða í eigu Ísafjarðarbæjar í þorpunum, Flateyri, Suðureyri og Þingeyri er lægra en nemur áhvílandi skuldum. Þetta kemur fram í minnisblaði um eignasafn Fasteigna Ísafjarðarbæjar.

Alls eru 103 eignir í félaginu. Fasteignamat þeirra á næsta ári 2020 er 1.260 milljónir króna og staða lána sem hvíla á eignunum var 31.11. 2019 samtals 1.223 milljónir króna. Í heild var markaðsvirði eignanna 37  milljónum króna hærra en skuldirnar.

Þegar eignasafnið er greint eftir byggðakjörnum kemur í ljós að á Ísafirði og í Hnífsdal er verðmæti 75 eigna samtals 1.261 milljónir króna og er 129 milljónum króna hærra en áhvílandi skuldir.

Öðru máli gegnir um eignirnar í þorpunum. Á Suðureyri eiga Fasteignir Ísafjarðarbæjar 15 eignir. Þar er fasteignamat þeirra 130 milljónir króna en skuldirnar 222 milljónir króna eða 92 milljónum króna hærri. Það er rúmlega 6 milljónir króna að meðaltali á hverja íbúð.

Á Þingeyri eru 11 eignir að verðmæti 86 milljónir króna en skuldirnar eru 112 milljónir króna. Þar er hallinn 26 milljónir króna. Tvær eignir eru á Flateyri sem eru 18,6 milljónir króna í fasteignamati og áhvílandi skuldir eru 20,3 milljónir króna.

 

Ekki kemur fram í minnisblaðinu hvernig þessi halli varð til, en beðið er svara frá Ísafjarðarbæ um það.

DEILA