Ísafjarðarbær: lækka framkvæmdafé um 214 mkr

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að lækka framkvæmdafé ársins um 214 milljónir króna. Bæjarstjórn mun afgreiða breytinguna á fundi sínum á morgun.

Það er fyrst og fremst fjárveiting til íþróttamannvirkja sem lækkar þar sem boltahúsið nýja er ekki komið lengra en í útboðsferli. Við það lækkar fjárveitingin úr 220 milljónum króna í 8 milljónir króna.

Þá lækkar fjárveiting til leiksskóla úr 120 milljónum króna í 100 milljónir króna vegna seinkunar á stækkun Eyrarskjóls. Þá seinkar verki við Skrúð í Dýrafirði og því lækkar fjárveiting til þjónustuhúsnæðis úr 10 milljónum króna í 6,5 milljónir króna.

Liðurinn áhöld og tæki hækkar hressilega úr 8 milljónum króna í rúmar 49 milljónir króna með þeirri skýringu að ófyrirséðar framkv hafi hækkað.

Kostnaður við hafnarframkvæmdir lækka í heild. Sundabakki reyndist minna en áformað er og því lækkar kostnaður um 2  milljónir króna, kostnaður við flotbryggju hækkar um 3 milljónir króna og kostnaður við löndunarkrana lækkar um 6 milljónir króna þar sem hlutur ríkisins varð 75% í stað 60%.

Loks fær bærinn söluhagnað upp á 43,5 milljónir króna af sölu þriggja íbúða sem ekki var gert ráð fyrir.

DEILA