IPN-veira staðfest í laxi – en enginn sjúkdómur

Frá Reyðarfirði. Mynd: Laxar fiskeldi.

Matvælastofnun sendi frá sér fyrir helgi tilkynningu um að veira sem valdið getur sjúkdómnum brisdrepi í fiskum hafi greinst í laxi úr sjókví Laxa fiskeldis ehf. í Reyðarfirði. Þetta er í fyrsta sinn sem IPN-veiran greinist í laxi á Íslandi.

IPN-veiran uppgötvaðist í kjölfar sýnatöku við reglubundið innra eftirlit hjá Löxum fiskeldi ehf. í Reyðarfirði. Laxinn sem veiran greindist í er heilbrigður og ástand laxa í kvíum almennt gott.

Þó svo veiran hafi greinst hefur sjúkdómurinn brisdrep  ekki komið upp í löxunum og hefur enn ekki komið upp á Íslandi. Leiða má líkur að því að veiran sem nú hefur greinst hafi borist í laxinn úr umhverfi.

Brisdrep getur valdið tjóni í eldi, einkum í ferskvatnseldi á seiðum. Afföll eru algengust í eldi smáseiða í ferskvatni og í stálpuðum seiðum sem flutt eru smituð úr seiðastöð í sjókvíar. IPN-veiran hefur enn ekki greinst í ferskvatnseldi á Íslandi, en umfangsmikil vöktun á veirunni hófst í klak- og seiðastöðvum árið 1985, jafnt í eldisfiski sem villtum laxi.

Matvælastofnun segir í tilkynningu sinni að veiran  sé skaðlaus mönnum og berist ekki með fiskafurðum. Veiran er útbreidd í vatna- og sjávardýrum á heimsvísu, bæði í villtu umhverfi og eldi. Þekkt er að eldri fiskur í sjó geti tekið smit úr umhverfi án þess að sýna sjúkdómseinkenni.

Laxar fiskeldi ehf segir í yfirlýsingu vegna þessa að IPN hafi áður verið staðfest á Íslandi, en það var í lúðu fyrir 20 árum. Þrátt fyrir ítarlega rannsókn, hefur IPN ekki fundist í seiðaeldisstöðvum fyrirtækisins. Því er langlíklegast að veiran hafi borist úr umhverfinu. IPN fannst einungis í einni kví af 18 sem fyrirtækið er með úti. Greining hennar staðfestir að vöktun Laxa virkar eins og skyldi segir í yfirlýsingunni.

Í varúðarskyni hefur Matvælastofnun sett dreifingarbann á starfsstöð fyrirtækisins að Bjargi í Reyðarfirði og mun það gilda þar til slátrað hefur verið upp úr sjókvíunum.

DEILA