Húsnæðisþing: spáir 1000 manna fækkun á Vestfjörðum

Í skýrslu sem lögð var fyrir húsnæðisþing 2019 í dag kemur fram að spáð er því að fram til 2050 muni íbúum fækka á Vestfjörðum úr 7.000 í 6.000 miðað við miðspá. Háspáin gerir líka ráð fyrir fólksfækkun, þótt lítil sé eða í 6.800 manns. Lágspáin fer með íbúðafjöldann niður í 5.200 sem er um 26% fólksfækkun.

Íbúafjöldi er sá þáttur sem miklu ef ekki mestu ræður um þörf á húsnæði.

Bent er á í skýrslunni að á Vestfjörðum hafi lítið sem ekkert verið byggt af nýju íbúðarhúsnæði sem hefur valdið því að húsnæðisstofninn í sveitarfélögunum hefur elst og er því komið að viðhaldi á stórum hluta hans.

Vísað er til þess að á  undanförnum misserum hafi verið „uppgangur í atvinnulífinu á Vestfjörðum og á síðustu árum hefur myndast mikill skortur á íbúðarhúsnæði í mörgum sveitarfélaganna. Þá eru merki um að húsnæðismarkaður sé í einhverjum tilvikum farinn að hamla frekari vexti samfélaga á svæðinu. Sveitarfélögin hafa þó fundið fyrir
auknum áhuga meðal verktaka og einstaklinga að hefja framkvæmdir að undanförnu með aukinni eftirspurn eftir lóðum.“

Þá er uppsöfnuð íbúðaþörf metin í skýrslunni á bilinu um 30 til 40 íbúðir samkvæmt upplýsingum frá sveitarfélögum á Vestfjörðum.

Í skýrslunni segir svo :

„Ekki verður lagt mat á íbúðaþörf til næstu átta ára í landshlutanum þar sem nægjanlegar upplýsingar liggja ekki fyrir en ljóst er að þörf verður fyrir uppbyggingu húsnæðis á næstu árum ef fram heldur sem horfir.“

DEILA