Hótel Ísafjörður fékk viðurkenningu fyrir nýsköpun

Frá afhendingu nýsköpunarverðlauna ferðaþjónustunnar 2019. Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, Hólmfríður Vala Svavarsdóttir, hótelstjóri Hótels Ísafjarðar, Jón Steindór Árnason, stjórnarformaður Sjóbaðanna á Húsavík, Ragnhildur Ágústsdóttir, stofnandi og eigandi Icelandic Lava Show og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.

Hótel Ísafjarðar fékk á mánudaginn nýsköpunarviðurkenningu ferðaþjónustunnar 2019.

Sjóböðin á Húsavík hlutu nýsköpunarverðlaun ferðaþjónustunnar árið 2019. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti Sjóböðunum á Húsavík verðlaunin við hátíðlega athöfn á Center Hotels við Laugaveg í Reykjavík.

SAF afhenda nýsköpunarverðlaun fyrir athyglisverðar nýjungar og er markmiðið að hvetja fyrirtæki innan samtakanna til nýsköpunar. Verðlaununum er ætlað að hvetja frumkvöðla landsins til dáða í ferðaþjónustu. Þetta er í sextánda skipti sem SAF veita nýsköpunarverðlaun ferðaþjónustunnar.

Árið 2005 fékk VEG Guesthouse á Suðureyri og Fjord Fishing nýsköpunarverðlaunin.

Hótel Ísafjörður og Icelandic Lava Show hlutu nýsköpunarviðurkenningu
Að þessu sinni ákvað dómnefnd nýsköpunarverðlaunanna að tilnefna þrjú fyrirtæki sem áttu kost á að hljóta verðlaunin, en auk Sjóbaðanna á Húsavík hlutu Hótel Ísafjörður og Icelandic Lava Show nýsköpunarviðurkenningu ferðaþjónustunnar árið 2019.

Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður SAF og formaður dómnefndar nýsköpunarverðlaunanna, gerði grein fyrir niðurstöðu dómnefndar, en hana skipuðu auk hennar þau Guðrún Þóra Gunnarsdóttir, forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar ferðamála, og Helgi Þór Jónsson, eigandi Sponta og fulltrúi fyrirtækja innan SAF.

DEILA