Matvælastofnun hefur veitt Háafelli hf rekstrarleyfi fyrir 800 tonn landeldi á laxi og regnbogasilungi á Nauteyri. Leyfið er til 10 ára og bundið kennitölu Háafells, landeldi og Nauteyri sem eldissvæði.
Seiðaeldisstöð hefur verið starfrækt á Nauteyri frá 1985 og hefur leyfið verið fyrir 200 tonna framleiðslu á lax og regnbogasilungi. Fyrir 4 árum tilkynnti Háafell um fyrirhugaða stækkun og hefur rekstrarleyfi loksins verið gefið út. Skipulagsstofnun komst að þeirri niðurstöðu í lok árs 2015 að framkvæmdin þyrfti ekki að fara í umhverfismat.
Áformað er að stækka húsnæði stöðvarinnar úr 1.000 fermetrum í 6.000 fermetra.