Fyrirhugð sameining sveitarfélag mun litlu breyta

 

Enn er gripið til sjónhverfinga til þess að fá Vestfirðinga til þess að sjá ekki ástæður vandans sem byggðirnar standa frammi fyrir. Aftur er það sameining sveitarfélaga sem á að vera einhver bjarghringur sem snúi vörn í sókn, snúi afturför í framför. Þessi málflutningur var borinn fram fyrir rúmum aldarfjórðungi. Þá voru sveitarfélög flest 32 á Vestfjörðum en eru nú aðeins 9. Engu að síður hefur íbúum fækkað sem aldrei fyrr.

Sem dæmi má nefna er að Vestfirðingum fækkaði um 35% frá 2000 til 2017. En landsmönnum fjölgaði um 21% á sama tíma. Þetta gerist að loknum meiri sameiningum sveitarfélaga á Vestfjörðum  en nokkur dæmi eru um á landinu.

Berja höfðinu við stein

Þrátt fyrir þessar staðreyndir fara forystumenn sambands íslenskra sveitarfélaga og ríkisstjórnarinnar fram með það yfirlýsta markmið að sameina sveitarfélög enn frekar til þess ná fram sjálfbærum byggðum og sveitarfélögum um land allt.

Reynslan talar sínum máli og staðfestir að sameining sveitarfélaganna nær ekki þessu markmiði og nær ekki einu sinni að halda aftur af afturför í íbúaþróun.

Samgönguráðherra og fleiri ábyrgðaraðilar reyna ekki einu sinni að láta greina orsakir þess að fyrra sameiningarátak mistókst að þessu leyti. Þeir einfaldlega ákveða að berja höfðinu við steininn og fara aftur fram með sömu frasana um hagræðingu og sparnað með sameiningum. Nú er gerð skýrsla með staðhæfingum um milljarða króna sparnað í rekstri sveitarfélaga ef bara þessi fámennu verði lögð undir önnur vel rekin sem veita betri þjónustu. Skýrsluhöfundar setja að vísu þann varnagla að þeir hafi komist að því að athugðu máli að allar fyrri spár um sparnað hafi reynst orðin tóm og aldrei gengið eftir.

Tökum samtalið

Þeir sem reka tryppin í þessari áróðursherferð hafa ekki meiri trú á málstaðnum  um ágæti sameiningarinnar en svo að þeir vilja alls ekki að íbúarnir verði spurðir. Líklega gera þeir sér grein fyrir að íbúarnir í fámennu sveitarfélögunum sem eru undir hnífnum munu fella sameiningu. Ástæðan blasir við hverjum þeim  sem sjá vill. Vond reynsla fámennra samfélaga af því að verða hverfi í stærra sveitarfélagi. Hvernig væri að Sigurður Ingi Jóhannsson og bæjarstjórinn í Hveragerði spyrðu íbúana um reynslu þeirra og hvað þeir vildu láta gera. Eigum við ekki að taka samtalið, svo notaður sé ofnotaður frasi frá ónefndum ráðherrum sem skreyta sig með umræðustjórnmálum.

 

Skammtímalausn

Boðnir eru fjármunir þeim sem falla fram og vilja sameinast. Það athyglisverða er að peningarnir fara einkum til fjölmennu sveitarfélaganna en síður til fámennu. Það er vegna þess að þau fjölmennari eru í fjárhagsvanda en ekki þau fámennu. Sem sé sveitarfélögin sem þegar eru svo fjölmenn að þau eiga að vera sjálfbær eru það ekki. Og þau sem eru svo fámenn að þau eiga sér ekki viðreisnar von eru fjárhagslega sjálfbær. Þessi mótsögn sem ríkisstjórnin hyggst samt reka ofan í kokið á Vestfirðingum minnir helst á snjallt svar Gunnar Thoroddsen, sem þá var varaformaður Sjálfstæðisflokksins: nú mistekst formanni Sjálfstæðisflokksins og víkur þá varaformaður. Nú eru fjölmenn sveitarfélög í fjárhagsvanda og verða þá fámenn sveitarfélög, sem ekki eru í vanda  lögð niður og peningarnir færðir þangað. Augljóslega er lausnin ekki í neinu samræmi við vandamálið.

Þessi komandi sameiningarhrina á Vestfjörðum byggir á skammtímasjónarmiðum.  Í Vesturbyggð, Ísafjarðarbæ og Strandabyggð sjá menn fram á að fá peninga til að lækka skuldir sveitarfélaganna og það mun létta róðurinn um skeið en svo mun sækja aftur í sama farið. Þetta verður enn ein skammtímalausnin sem breytir engu um þróunina sem staðið hefur yfir í þrjátíu ár. Fólki mun áfram fækka, störfum mun áfram fækka og viðspyrnan heima í héraði mun halda áfram að veikjast.

Ríkið er vandinn

Vandinn liggur ekki í sveitarfélögunum. Í öllum megindráttum eru verið að veita eins góða þjónustu og aðstæður leyfa. Fámennari sveitarfélögin hafa leyst margt með samstarfi við þau fjölmennari og greitt fyrir það fullt verð. Enginn sá vandi er uppi að sameining sveitarfélag valdi einhverjum straumhvörfum.

Vandinn liggur í ríkinu. Ríkið ræður of miklu, heimamenn ráða of litlu.  Það sem þarf er að færa völd og fjármagn frá ríkinu til sveitarfélaganna eða landshlutans. Slík aðgerð myndi gera svæðið sjálfbjarga eða sjálfbært eins og það heitir á reykvískunni.

Við sjáum hvað virkar. Uppbygging í atvinnulífinu gerir það. Laxeldið hefur snúið vörn í sókn á sunnanverðum Vestfjörðum.  Ríkið hefur að hluta til verið Vestfirðingum mótdrægt í nauðsynlegri uppbyggingu í fjórðungnum.  Ríkisstofnanir eins Hafrannsóknarstofnun, Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun vaða um eins fíll í postulínsbúð og þjóna kreddum forstöðumanna sinna.

Við þurfum að taka frá ríkinu vald, verkefni og fjármuni og flytja það vestur. Það þarf að efla stjórn heima í héraði. Vestfirðingar eiga að gera slíkar kröfur á hendur ríkisvaldinu og eiga ekki að sætta sig við skammtímalausnir, sem aðeins viðhalda óbreyttu ástandi.

Það er kominn tími til að velta borðum víxlaranna.

Kristinn H. Gunnarsson

DEILA