Frystitogarinn Júlíus Geirmundsson ÍS 270 þrjátíu ára

Þann 10. nóvember 2019 voru þrjátíu ár frá því að frystitogarinn Júlíus Geirmundsson ÍS 270 kom fyrst til heimahafnar á Ísafirði.  Forsaga þess er að Gunnvör hf. samdi árið 1987 við skipasmíðastöðina Gryfia í Stettin i Póllandi um smíði á skuttogara eftir teikningu Ísfirðingsins Bárðar Hafsteinssonar skipaverkfræðings hjá Skipatækni hf.  Eigendur Gunnvarar hf. þekktu vel til hans þar sem eitt fyrsta verkefni hans sem skipaverkfræðings var eftirlit  með byggingu  fimm skuttogara fyrir Vestfirðinga í Flekkefjord í Noregi á árunum 1971-1974.

Frá þessu er greint á vefsíðu Hraðfrystihússins – Gunnvör hf og þar er rakin saga skipsins sem hefur frá upphafi veitt um 135 þúsund tonn að verðmæti um 50 milljarðar króna:

 

Stífar reglur giltu um endurnýjun skipa á þessum árum og til að fá veiðileyfi á nýtt skip þurfti að taka annað úr rekstri.  Leyft var að nýju skipin væru 33%  stærri en þau gömlu og var nýi togarinn hannaður með tilliti til þessara reglna. Eldri  Júlíus (III) þurfti því að hverfa úr rekstri hér á landi til að veiðileyfi fengist á nýja skipið. Það fór þó svo að Síldarvinnslan hf. á Neskaupstað festi kaup á skipinu og var það nefnt Barði NK. 120.   Tók Gunnvör hf. gamla  Barða NK 120 upp í kaupin en það var mun minna skip smíðað í Póllandi árið 1975.

Samningurinn við pólsku skipasmíðastöðina var með öðru sniði en vant var, hún sá um smíði skrokksins, en Gunnvör hf. lagði til mest allan búnað. Þetta kom til m.a. vegna þess að þjóðfélagið í Póllandi var mjög lokað á þessum árum, strangar reglur um gjaldeyrisviðskipti og skriffinnska mikil. Á þessu slaknaði mjög á byggingartíma skipsins og allt orðið mun frjálsara þegar það var afhent, enda þá einungis átta dagar í fall Berlínarmúrsins.

Í fyrstu var gert ráð fyrir að skipið yrði ísfisktogari  með möguleika á að heilfrysta afla, en á byggingartímanum var ákveðið að breyta því í flakafrystiskip.

Nýr Július Geirmundsson ÍS 270, sá fjórði með því nafni, kom til heimahafnar á Ísafirði 10. nóvember 1989 eins og áður sagði og að venju var gerð ítarleg grein fyrir komu þess í blöðum. Í Morgunblaðinu 12. nóvember birtist eftirfarandi eftir fréttaritarann Úlfar:

„Verksmiðjuskipið Júlíus Geirmundsson ÍS 270 kom til Ísafjarðar á sl. föstudag. Skipið hefur vinnslugetu á við lítið sjávarþorp, en við það starfa einungis 27 menn, 25 um borð og 2 á skrifstofu í landi. Skipið fer til veiða í næstu viku, en það á um 1000 tonna kvóta á þessu ári. Það var skipasmíðastöð í Stettin í Póllandi sem smíðaði skipið en Skipatækni hf. hannaði.Vinnslulínur eru að mestu danskar og þýskar, en vogir eru frá Pólstækni á Ísafirði. Framleitt er undir eigin nafni, Julius Brand, og selt er beint á erlenda markaði.

Að sögn Kristjáns Jóhannssonar útgerðarstjóra skipsins, er það 1.403 brúttótonn eftir nýju mælingunni, 57,5 metrar á lengd, 12 metra breitt og hefur meðaldjúpristu upp á 5 metra.Vélin er 3.342 hestafla, Wärtsilä, vindur frá Brusseles, tölvutrollstýribúnaður frá Rafboða, frystibúnaður frá Söby og fiskvinnsluvélar frá Baader.

Fiskurinn er fullunninn um borð og er afkastageta um 42 tonn af fullunnum afurðum á sólarhring, en það jafngildir um 100 tonna afla upp úr sjó. Á venjulegum skuttogara af þessari stærð eru um 15 menn i áhöfn þannig að aðeins er bætt við 10 mönnum til að fullvinna veiðina.

Kaupverð skipsins er 470 milljónir króna.  Skipstjóri á Júlíusi er Hermann Skúlason, yfirvélstjóri Þorlákur Kjartansson og 1. stýrimaður Ómar Ellertsson.“

Gunnvör hf. og Hraðfrystihúsið hf. í Hnífsdal sameinuðust árið 1999 undir nafninu Hraðfrystihúsið – Gunnvör hf. og hefur Júlíus Geirmundsson verið gerður út af því síðan.

DEILA