Flateyri: Byggðastofnun er ekki að valda hlutverki sínu

Byggðastofnun veldur ekki hlutverki sínu segir Gunnar Torfason, útgerðarmaður frá Ísafirði. Annars vegar er stofnunin að veita fyrirtækjum lán og hins vegar er stofnuninni ætlað að úthluta umtalsverðum kvóta sem gefur þeim sem fær miklar tekjur segir Gunnar í samtali við Bæjarins besta.

Fyrirtæki Gunnars Tjaldtangi ehf sendi inn umsókn um sérstaka byggðakvótann á Flateyri og er í samstarfi við Walvis ehf á Flateyri, sem er eina fiskvinnslan þar sem er starfandi.

Eins og fram kom á Bæjarins besta í gær þá leggur aflamarksnefnd Byggðastonfunar til að samið verði við Íslandssögu og samstarfsaðila hennar og öðrum umsóknum hafnað. Bæjarráð Ísafjarðarbæjar gerir ekki athugasemd við þá tillögu.

„Undanfarin ár hefur það veri tilhneiging stofnunarinnar að gera samninga, um aflamark, við fyrirtæki sem skulda stofnunninni.  Hjá stofnun eins og Byggðastofnun þá er erfitt að koma í veg fyrir samráð lánanefndarmanna og aflarmarksnefndarmanna“ segir Gunnar.

„Til að umsóknaraðilar aflamarks njóti jafnræðis þá verður að flytja ákvarðanir um úthlutanir út úr stofnuninni.   Í dag sjá sérfræðingar Sjávarútvegsráðuneytis og Fiskistofa um úthlutun almenns byggðakvóta.  Ég tel að þeir sérfræðingar séu einnig hæfir til að taka við úthlutun aflamarks Byggðastofnunar.

Með breyttu fyrirkomulagi þá er komið í veg fyrir að sú spurning vakni hvort það sé forsenda fyrir samstarfi við Byggðastofnun að skulda stofnuninni fjárhæðir?“

Walvis ehf skuldar ekkert

„Það gengur ekki upp að fiskvinnslur eins og Walvis ehf., sem skulda ekki Byggðastofnun og stundar ekki pólitískt baktjaldamakk, njóti ekki sannmælis þegar kemur að úthlutun byggðastyrkja.“

Hafnað í þriðja sinn

Allt stefnir í að Walvis ehf., eina fiskvinnslan á Flateyri, verði enn og aftur sniðgengin um aflamark Byggðastofnunar á Flateyri og aflamarki, eyrnamerktu Flateyri, verði úthlutað til fyrirtækis á Suðureyri.

„Í lok árs 2013 hafnaði Byggðastofnun að semja við Walvis ehf. og Tjaldtanga ehf, um aflamark Byggðastofnunar á Flateyri.  Í stað þess var samið við Arctic Odda ehf., Vestfirðing ehf., ÍS 47 ehf. og Hlunnar ehf.  Eins og öllum er ljóst þá var umsókn þessarra aðila byggð á sandi og gáfust þeir upp á samstarfi í lok árs 2014“ segir Gunnar Torfason.

„Fyrri hluta árs 2015 þá hafnaði Byggðastofnun því að semja við Walvis ehf. og Tjaldtanga ehf. um aflamark Byggðastofnunar á Flateyri.  Í stað þess var samið við Fiskvinnslu Flateyrar ehf., ÍS 47 ehf. og Hlunnar ehf.   Eins og öllum er ljóst þá var umsókn þessarra aðila byggð á sama sandi og gáfust þeir upp á samstarfi sumarið 2019.“

Flateyrarkvóti til Suðureyrar

„Árið er 2019 og allt stefnir í að Walvis ehf. og Tjaldtanga ehf. verði enn einu sinni hafnað um aflamark Byggðastofnunar á Flateyri og stofnunin úthluti aflamarkinu til Suðureyrar.

Erfitt er að sjá fyrir að fiskvinnsla sem er með starfsemi á Suðureyri fari að byggja eitthvað upp á Flateyri. Stofnunin ætlar að viðhalda áfram þeim glundroða sem hefur verið í sjávarútvegi á Flateyri undanfarin ár með því að úthluta fiskvinnslu á Suðureyri aflamarki stofnunarinnar sem eyrnarmerkt er Flateyri.“ segir Gunnar Torfason að lokum.

DEILA