Dalvík: nýr hafnargarður vígður

Katrín Sigurjónsdóttir, bæjarstjóri á Dalvík segir að í gær hafi  Hafnarsjóður Dalvíkurbyggðar verið að vígja nýtt hafnarmannvirki, Austurgarð. Framkvæmdin hefur verið í gangi undanfarin 3 ár og er heildarkostnaður við mannvirkið rúmlega 500 milj.kr.

Katrín segir að ranglega sé sagt frá því í frétt Bæjarins besta að tilefnið hafi verið vígsla á nýju fiskvinnsluhúsi.

„Við það tækifæri gafst gestum við vígsluna kostur á að skoða framkvæmdir Samherja við byggingu nýs fiskiðjuvers á Dalvík sem staðsett er við hinn nýja hafnargarð“ segir Katrín.

Allir þingmenn kjördæmisins

„Þennan sama dag var haldinn á Dalvík aðalfundur Eyþings þar sem teknar voru tímamótaákvarðanir um sameiningu Eyþings við atvinnuþróunarfélögin í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum. Gestir fundarins voru m.a. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem og aðrir þingmenn NA kjördæmis og formaður Sambands ísl. sveitarfélaga. Hlé var gert á aðalfundinum á meðan á vísglsuathöfninni stóð og fjölmenntu þingfulltrúar og gestir á vígslu Austurgarðs og glöddust með heimafólki.“

Katrín bætir því að við að þetta hafi verið mikill gleðidagur í Dalvíkurbyggð.

DEILA