Byggðastofnun: Flateyrarmálinu frestað

Stjórn Byggðastofnunar ákvað í dag á fundi sínum að að fresta afgreiðslu umsókna um Aflamark Byggðastofnunar á Flateyri. Umsækjendur um sérstaka byggðakvótann á Flateyri til næstu sex ára fengu síðdegis í dag upplýsngar um þetta.

Segir í bréfi Byggðastofnunar:

„Síðast liðinn mánudag birtist frétt á vefmiðlinum Bæjarins Besta á Ísafirði þar sem birtar voru upplýsingar um tillögu Aflamarksnefndar Byggðastofnunar til stjórnar Byggðastofnunar sem ekki hafði á þeim tíma fengið gögn málsins og tillögur til umfjöllunar.  Í framhaldinu hafa einstakir umsækjendur og fyrirtæki úr hópi umsækjenda snúið sér til stofnunarinnar með óskum um að koma á framfæri frekari upplýsingum eða að skýra sínar umsóknir frekar og sumir raunar þegar haft frumkvæði að því.  Til að tryggja að allir sitji við sama borð er að mati Byggðastofnunar nauðsynlegt að gefa öllum umsækjendum kost á að uppfæra sínar umsóknir og eiga fund með fulltrúum stofnunarinnar óski þeir þess.  Að því loknu verði málið aftur sent Ísafjarðarbæ til umsagnar og að því loknu tekið fyrir á ný í stjórn Byggðastofnunar aftur til endanlegrar afgreiðslu.“

 

Uppfærð umsókn og/eða ný gögn skulu hafa borist stofnuninni eigi síðar en föstudaginn 22. nóvember n.k.

DEILA