Bolungavík: hvetja til umsókna í Uppbyggingarsjóð

Bæjarráð Bolungavíkur hefur falið bæjarstjóra að efna til sérstakt kynningarátaks fyrir umsóknir frá Bolungarvík í uppbyggingarsjóð Vestfjarða. Stefnt verður að því að halda ókeypis námskeið í gerð umsókna í sjóðinn og hvetja fyrirtæki, einstaklinga og félagasamtök til að senda inn umsóknir um verkefni.

Tilefnið er að Uppbyggingarsjóðurinn hefur auglýst eftir umsóknum um verkefni til efla atvinnulíf, nýsköpun eða menningarlíf á Vestfjörðum.

Jón Páll Hreinsson hefur í fyrri störfum komið að gerð umsókna og þekkir því til á þessu sviði. Hann sagði í samtali við Bæjarins besta að hann yrði að dusta rykið af gamalli þekkingu og veita þeim leiðbeiningar sem hygðu á að sækja um styrk úr Uppbyggingarsjóðnum. Jón Páll lagi áherslu á að huga vel að leiðum til að efla atvinnulíf og nýsköpun á Vestfjörðum.

 

Uppbyggingarsjóður Vestfjarða er hluti af Sóknaráætlun Vestfjarða og kýs Fjórðungsþing Vestfirðinga úthlutunarnefndina. Umsóknarfrestur er til kl. 16:00 fimmtudaginn 21. nóvember 2019. Á þessu ári var úthlutað rúmlega 50 milljónum króna til ríflega 70 verkefna, flest á sviði menningarmála.

DEILA