Bíldudalsvegur: ónýt klæðning á ónýtum vegi

Fimmtán km langur kafli á vegi nr 63 Bíldudalsvegi sem tekinn var út er metinn ónýtur í skýrslu Vegagerðarinnar frá júlí 2019. Klæðning á þessum vegarkafla er einnig metin ónýt.

Það voru Gunnar Bjarnason og Pétur Pétursson  sem unnu úttektina fyrir Vegagerðina sem fram fór á vegum Vestfjarða 11. – 13. júní 2019.

Í úttektinni á klæðingum á Vestfjörðum var ákveðið að takmarka úttektirnar við „hringveginn“ um Vestfirði, þ.e.a.s. vegnúmer 60 til 63 og reyndar var byrjað í Dölunum. Það var einnig ákveðið að takmarka úttektirnar við klæðingar sem voru lagðar á árunum 2014 til 2018, en sleppa úttektum á eldri klæðingarköflum, þótt tekið hafi verið eftir og þess getið á nokkrum stöðum að sumar eldri klæðingar voru oft enn í fínu lagi.  Þess má geta að alls voru metnir tæpir 177 km í þessari úttektarferð.

Tilefnið var umræða um að klæðingar á Vestfjörðum væru á heildina litið illa farnar.

 

Verst ástandið á Bíldudalsvegi. 

Í skýrslunni segir um Bíldudalsveg:

„Allar klæðingar sem voru ástandsmetnar á Bíldudalsvegi voru lagðar á veg sem var svo illa farinn að hann var metinn ónýtur í öllum tilfellum og þar með taldar klæðingarnar á honum. Þær klæðingar sem lagðar voru á Bíldudalsveginn og metnar árið 2019 eru frá árunum 2015, 2017 og 2018, en draga má þann lærdóm að ef vegur er ónýtur og undirlag nýrrar klæðingar er krosssprungið eru litlar líkur á að nýja klæðingin endist fyrsta veturinn.“ og ennfremur stendur: „Að mati skýrsluhöfunda þarfnast þessi vegur í heild sinni endurbyggingar og styrkingar og að í raun sé lítið gagn af því að leggja nýjar klæðingar og/eða bletta í verstu blettina á svona veg. “

Af þeim 177 km sem voru ástandsmetnir á hringvegi Vestfjarða voru tæpir 19 km metnir ónýtir vegir og þar með talin klæðingin sem á þá hafði verið lögð. Flestallir þessir ónýtu vegir eru á Bíldudalsvegi.

Klæðning að mestu leyti í lagi

Heildarniðurstaðan var hins vegar sú að ástand er gott að mestu leyti. liðlega 80% klæningarinnar er í lagi eða betra ástandi. Um 11% er ónýtt af þessum 177 km.

 

 

 

 

 

DEILA