Arnarlax skráð í norsku kauphöllinni

Í dag var fyrirtækið Arnarlax hf skráð á OTC lista norsku kauphallarinnar,  Oslo Børs. Viðskipti með hlutabréf í fyrirtækinu fara þá í gegnum þann markað og lúta reglum kauphallarinnar. Meginreglan er að kaup og sala er öllum frjáls. Þar með geta íslenskir sem erlendir aðilar fjárfest í fyrirtækinu.

Í fréttatilkynningu frá Arnarlax segir að markmið fyrirtækisins sé að framleiða góð matvæli í sátt við náttúruna, sem þörf er fyrir vegna sívaxandi íbúafjölda á heimsvísu  og að fyrirtækinu standi öflugur hópur langtímafjárfesta.

Arnarlax hefur fengið ASC umhverfisvottun fyrir starfsemi sína á Haganesi og Steinanesi í Arnarfirði. Það þýðir að öll framleiðsla fyrirtækisins á árinu 2019 er ASC vottuð. Þá er verið að vinna að því að fá ASC vottun fyrir Hringsdal í Arnarfirði.

Framleiðsla ársins verður um 10.000 tonn af eldislaxi sem er helmingsaukning frá 2018 þegar framleiðslan var 6.700 tonn. Arnarlax hefur leyfi fyrir 25.200 tonna lífmassa og hefur sótt um 14.500 til viðbótar.

Stærsti hluthafi í Arnarlax er norska fyrirtækið SalMar ASA, sem á 54,2% hlutafjár og jók hlut sinn úr 42% snemma á árinu 2019.

DNB Markets sem er í eigu Den Norske Bank veitti ráðgjöf og aðstoð við skráningu Arnarlax í norsku kauphöllina.

DEILA