Alþingi: rætt um jöfnun raforkukostnaðar

Sérstök umræða um jöfnun dreifikostnaðar á raforku fór fram á Alþingi mánudaginn 25. nóvember. Málshefjandi var Halla Signý Kristjánsdóttir, þingkona Framsóknarflokksins, og til andsvara var Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, félags- og nýsköpunarráðherra.

Halla Signý benti á að landsmenn sitja ekki við sama borð þegar kemur að flutningi raforku til síns heima og að núverandi jöfnunargjald sé langt frá því að jafna verðmuninn á milli dreifbýlis og þéttbýlis. Hún minntist á nýlega skýrslu starfshóps á vegum ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um raforkuflutning í dreifbýli, þar sem fram koma tillögur um hvernig hægt sé að ráða bót á þessu.

Ráðherra benti á að nokkrar leiðir væru færar til að jafna verðmuninn milli landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins. Það væri t.d. hægt að afnema skilin milli dreibýlisgjaldskrár og þéttbýlisgjaldskrár og sameina þær, hækka jöfnunargjaldið, eða nýta fjármuni og arðgreiðslur frá Rarik og Orkubúi Vestfjarða tímabundið til að fjármagna það sem upp á vantar.

Halla Signý benti á að jöfnun dreifikostnaðar á raforku væri réttlætismál. Matvælaframleiðsla fer að mestu leyti fram í dreifbýli en núverandi kerfi.

„Þegar við tölum bara um samkeppnishæfni atvinnurekenda í landinu hljótum við að þurfa að tala um þá alla í einu mengi en ekki bara gera nánari skil á milli þéttbýlis og dreifbýlis.“

Líneik Anna Sævarsdóttir tók í sama streng í umræðu um sama mál sem fram fór á 149. þingi. Þá benti Líneik Anna á að dæmi væru um að dreifikostnaður raforku hjá grænmetisbónda í Eyjafirði hafi hækkað um tæp 60% á einu ári með tilheyrandi rekstrarerfiðleikum.

Starfshópurinn á vegum ráðherra hefur skilað tillögum að úrbótum. Það er yfirlýstur vilji stjórnvalda að bæta flutnings- og dreifikerfi raforku þannig að það mæti betur þörfum atvinnulífs og almennings á öllu landinu. Þingflokkur Framsóknarflokksins leggur ríka áherslu á jöfnun orkukostnaðar og hyggjast fylgja málinu þétt eftir.

„Við erum að horfa til þess að það dregur stöðugt þarna á milli og við verðum að fara að hraða aðgerðunum“, sagði Halla Signý að lokum.

DEILA