Að hygla valdagráðugum peningamönnum: Hvað sagði Matthías Johannessen og Óli Blöndal frændi hans?

Matthías Johannessen, ritstjóri Morgunblaðsins, hélt persónulegar dagbækur í áratugi. Þær eru stórkostlegar heimildir um þá tíma er hann og Styrmir Gunnarsson voru nokkurs konar ráðherraraígildi í mörgum ríkisstjórnum. Slík voru áhrif þessara tveggja. Dagbækur Matthíasar eru öllum aðgengilegar. Samt virðast þær liggja í láginni og má teljast undarlegt.

Úr dagbók Matthíasar Johannessen 1. nóv. 1996.

„Annars heyri ég æ meiri gagnrýni á Sjálfstæðisflokkinn fyrir það að sitja hjá meðan auður og völd safnast á fárra manna hendur, bæði í landi og á miðunum. Held þetta skaði flokkinn verulega og eigi eftir að skaða hann meir þegar fram í sækir. Er farinn að heyra gagnrýni á þessa hlutlausu afstöðu flokksins.
Eða er hún hlutlaus? Er þessi þróun ekki þóknunarleg forystunni?

Ég þekki engan meiri sjálfstæðismann en Óla Blöndal frænda minn í Siglufirði. Hitti hann um daginn. Hann fór strax að gagnrýna Sjálfstæðisflokkinn fyrir að leyfa slíka tilfærslu á peningum og völdum.
Þetta er ekki gamli Sjálfstæðisflokkurinn, sagði hann. Nú stjórna einn eða tveir menn ferðinni í Sjálfstæðisflokknum og þeir láta þetta viðgangast, sagði Óli Blöndal, og spurði mig hvort mér fyndist þetta ekki fráleitt. Þetta væri ekki sú eina sanna sjálfstæðisstefna, að hygla valdagráðugum peningamönnum.

Ég var sammála honum um að það væri ekki sú eina sanna stefna, hvað sem öðru liði. Vona að forystan sjái að sér í stað þess að sitja þarna uppi í fílabeinsturni og hamast á ritstjórum Morgunblaðsins fyrir kratisma!!
Kristján Ragnarsson réðst á okkur Styrmi í ræðu sinn á LÍÚ-þingi í gær; talaði um að síðasti sósíalisti landsins sæti á ritstjórastóli Morgunblaðsins. Talaði einnig um illmælgi í sambandi við framkvæmd fiskveiðistjórnunarinnar og skrif Morgunblaðsins.
Ég tel ekkert af þessu svaravert. Og ef eitthvað af því er svaravert þá höfum við svarað þessu margoft og fyrir löngu.“

 

Auðunn vestfirski

 

DEILA