7000 tonna eldisleyfi í Djúpinu að fæðast

Matvælastofnun hefur birt tillögu að rekstrarleyfi fyrir Háafell ehf. til sjókvíaeldis á regnbogasilungi og þorski í Ísafjarðardjúpi. Um er að ræða stækkun á eldra rekstrarleyfi Háafells úr 2.000 tonnum af regnbogasilungi og þorski í 7.000 tonn af regnbogasilungi og þorski. Framkvæmd fyrirtækisins fór í gegnum mat á umhverfisáhrifum í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum.

Framleiðslumagn 7.000 tonn, þar af 6.800 tonn regnbogasilungur og 200 tonn þorskur. Hámarkslífmassi 7.000 tonn, þar af 6.800 tonn regnbogasilungur og 200 tonn þorskur. Hámarkslífmassi á hverju sjókvíeldissvæði er 3.500 tonn.

Regnbogasilungurinn er frá Danmörku og þorskurinn er villtur.

Sjókvíaeldissvæðin eru þrjú:

A (9 eldissvæði í Álftafirði, Seyðisfirði og Skötufirði),

B (3 eldissvæði við Bæjarhlíð) og

C (5 eldissvæði í Mjóafirði og Ísafirði).

 

Athugasemdir við tillöguna og fylgigögn skulu vera skriflegar og sendar Matvælastofnun. Frestur til að skila inn athugasemdum er til 12. desember 2019.

DEILA