Virkjum hæfileikanna – líka þeirra sem hafa skerta starfsgetu.

Vikuna 14-18 október stendur yfir evrópsk starfsmenntavika þar sem sjónum er beint að starfsmenntun, fjölbreytni og jöfnun tækifærum á vinnumarkaði. Í vikunni mun Vinnumálastofnun vera með kynningu á ráðningarmöguleikum þeirra sem hafa skerta starfsgetu en hæfileika til starfa á ýmsum sviðum samfélagsins undir yfirskriftinni Virkjum hæfileikanna, alla hæfileikanna.  Markmiðið er að stuðla að því að allir hafi tækifæri til þátttöku á vinnumarkaði og vekja athygli á þeim möguleika að hægt er að ráða atvinnuleitendur með skerta starfsgetu til starfa með stuðningi og styrk.

Verkefni hvers samfélags er að tryggja að sem flestir hafi tækifæri til fullrar þátttöku. Til að svo megi verða hefur verið gripið til ýmissa ráðstafanna til að auðvelda fyrirtækjum að ráða til starfa einstaklinga með skerta starfsgetu. Til að mynda geta atvinnurekendur fengið styrk vegna ráðningar fatlaðra einstaklinga sem eru á örorku. Styrkurinn er í formi endurgreiðslu á hluta launakostnaðar fyrirtækisins vegna ráðningar einstaklinga með skerta starfsgetu. Styrkurinn nemur 75% launa til að byrja með fyrstu tvö árin en fer síðan lækkandi um 10% á ári. Þó er endurgreiðslan aldrei lægri en sem nemur 25% launa. Ekki skiptir máli hvert starfshlutfallið er. Hægt er t.d. að ráða inn starfsmann í tiltekin verkefni í 10% vinnu eða meira eftir því hvað hentar fyrirtækinu eða starfsmanninum.

Atvinnurekendur hafa einnig möguleika á að ráða einstaklinga með styrk af atvinnuleysisskrá sem eru með skerta starfsgetu en án örorku og fá greiðslur atvinnuleysisbóta. Styrkurinn er þá ekki hlutfall af launum heldur miðast við bótarétt atvinnuleitanda og hversu langt tímabil viðkomandi einstaklingur hefur verið á atvinnuleysisskrá. Styrktímabil getur þá verið lengst sex mánuðir með möguleika á framlengingu um aðra sex mánuði og er miðað við að einstaklingurinn sé ráðinn í fullt starf eða amk jafnmikið hlutfall og bótaréttur hans segir til um. Ráðgjafar Vinnumálastofnunar munu fúslega veita allar upplýsingar hafi atvinnurekendur áhuga og vilja til að ráða til sín starfsmenn með skerta starfsgetu.

Almennt er talið að mikill ávinnungur sé af því að hafa vinnustað fjölmenningarlegan þar sem margir ólíkir einstaklingar vinni saman og njóti viðurkeningar. Hefur m.a. verið bent á að samskipti séu jákvæðari, aukinn skilningur sé fyrir hendi og meiri samheldni starfsmanna og meiri vellíðan á vinnustað sem gerir ráð fyrir fjölbreytileika starfsfólks. Einnig hefur verið bent á að fyrirtæki fái jákvæðari ímynd með því að hafa fatlaða einstaklinga í vinnu. Ýmis fyrirtæki hafa fengið viðurkenningu á Fyrirmyndardegi undanfarin ár fyrir að ráða til starfa einstaklinga með fötlum og taka á móti fötluðum atvinnuleitendum í vinnustaðanám. Nú er stóra spurningin um hvort að þitt fyrirtæki gerist ekki fyrirmyndar fyrirtæki sem gerir ráð fyrir að ráða til starfa einstaklinga með skerta starfsgetu og taki þannig þátt í að virkja þá hæfileika sem búa í einstaklingum með fötlun og stuðlir með því að skemmtilegri og jákvæðari vinnustað þar sem gert er ráð fyrir að allir séu mikilvægir og geti lagt starfsseminni lið.

Guðrún Stella Gissurardóttir,

Vinnumálastofnun á Vestfjörðum.

DEILA