Veturnætur í Edinborgarhúsinu

Það verður fjölbreytt dagskrá í Edinborgarhúsinu í tengslum við Veturnætur á næstu dögum.  Föstudaginn 25. október kl. 17:00 opnar Raghildur Stefánsdóttir sýningu á verkinu „UM TORSO“ á gangi Edinborgarhússins sem hún hefur unnið að um árabil og er gúmmí. Ragnhildur er ein af öflugustu fulltrúum íslenskara skúlpúrista og hefur sýnt verk sýn um víða veröld.

Laugardaginn 26. október kl. 13:00 – 16:00 verður myndlistarsmiðja barna undir heitinu „Í nafni listarinnar“. Myndlistarmennirnir Ólöf Dómhildur Jóhannsdóttir og Gunnar Jónsson leiðbeina börnum og unglingum um víðlendur myndsköpunnar.  Allir velkomnir.

Laugardaginn 26. október  kl. 14:00 – 17:00 hafa menningarmiðstöðin og verslunin Klæðakot sameinað krafta sína ásamt valinkunnu handverksfólki um sameiginlegt útsaumsverkstæði þar sem allir geta mætt og deilt reynslu sinni. Verslunin Klæðakot hefur útbúið efnisbút með áprentuðu blómamynstri sem fæst í Klæðakoti og kostar 3 þúsund krónur. Allir eru velkomnir jafnt lærðir sem leikir. Það sem æskilegt að taka með eru skæri. Ullarþræðir verða á staðnum en ef fólk á útsaumsgarn þá er sjálfsagt að taka það með. Íris Ólöf Sigurjónsdóttir textílhönnuður mun halda fyrirlestur um mynstur útfrá verkum Sölva Helgasonar og Sigurðar Guðmundssonar málara. Hún mun einnig fjalla um endurvinnslu og vill að fólk taki með sér efnisafganga, tölur, blúndur og annað sem til fellur.

Sunnudaginn 27. október kl. 17:00 og 17:30 verða eldri dansnemendur við listaskólann með gjörning í Edinborgarsalnum. Verkefni dansaranna er að túlka annað tjáningaform sem að þessu sinni er myndlist. Allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir. Athugið að sýnt verður tvisvar sinnum.

DEILA