Veturnætur: hátíðartónleikar í Hömrum á morgun

Miðvikudaginn 23.október kl. 19:30 hefjast Veturnætur með hátíðartónleikum í Hömrum þar sem Maksymilian Haraldur Frach mun flytja Árstíðirnar eftir Vivaldi ásamt strengjasveit.

Maksymilian er fæddur og uppalinn á Ísafirði. Hann hóf fiðlunám fjögurra ára gamall við Tónlistarskólann á Ísafirði hjá föður sínum Janusz Frach og lauk þaðan framhaldsprófi með hæstu einkunn. Síðan var hann nemandi Guðnýjar Guðmundsdóttur við Listaháskóla Íslands en frá haustinu 2016 hefur hann stundað nám við Tónlistarakademíuna í Kraká undir handleiðslu Mieczyslaw Szlezer. Hann er verðlaunahafi alþjóðlegra tónlistarkeppna og hefur komið fram á fjölmörgum tónleikum bæði á Íslandi og erlendis. Samliða tónlistinni hefur Maksymilian verið mjög virkur í íþróttum. Hann hefur verið keppandi á 2. alþjóðlegri Ráðstefnu 21st Century Sport Market í Gdańsk 2019 og er m.a. bikarmeistari á gönguskíðum hér á landi og Vestfjarðameistari í sundi.

Strengjasveitina skipa:
Magdalena Nawojska, fiðla
Aleksandra Panasiuk, fiðla                                                                                           Joanna Bartkiewicz, fiðla
Nikodem Frach, fiðla
Janusz Frach, víóla
Klaudia Borowiec, selló

Ljóðaupplestur:
Ásdís Halla Guðmundsdóttir
Þuríður Kristín Þorsteinsdóttir

Vivaldi var afkastamikið tónskáld en Árstíðirnar fjórar eru hans þekktasta og vinsælasta verk. Vivaldi lét hverjum konserti fylgja Sonnettur , að öllum líkindum eftir hann sjálfan, og nær að fanga innihald þeirra snilldarlega í tónum. Þar má heyra fuglasöng vorsins og sekkjapípudans hjarðsveinanna að vori. Sumarhitinn verður næstum áþreifanlegur í öðrum konsertinum, og undir flugnasuði er undirliggjandi ógn þrumuveðursins, sem brýst út í lokaþætti konsertsins. Góðri uppskeru er fagnað að hausti með hátíðahöldum, við taka spennandi veiðiferðir og veturinn kemur með tilheyrandi kulda og glamrandi tönnum og þá er gott að hlýja sér við eldinn og hlusta á vindgnauðinn úti.

 

DEILA