Vesturbyggð: vill jarðgöng og flýta Dynjandisheiði

Bæjarráð Vesturbyggðar leggur fyrir Fjórðungsþing Vestfirðinga tillögu að tveimur ályktunum um samgöngumál. Annars vegar leggur bæjarráðið til að jarðgangaáætlun fyrir Vestfirði verði uppfærð þar sem horft verði til jarðganga til að bæta samgöngur innan sameinaðra sveitarfélaga, svo sem á sunnanverðum Vestfjörðum. þar eru nefnd Kleifaheiði, Hálfdán og Miklidalur sem farartálmar þar sem jarðgöng koma til álita. Hins vegar leggur bæjarráðið til að að flýtt verði vegagerð um Dynjandisheiði og við Bíldudalsveg.

Ályktanirnar í heild:

„Bæjarráð Vesturbyggðar leggur til við Fjórðungssamband Vestfirðinga að farið verði í að vinna uppfærða heildaráætlun um jarðgangnagerð á Vestfjörðum. Í áætluninni verði metnir helstu jarðgangnakostir á Vestfjörðum og þeim forgangsraðað með tilliti til atvinnusóknarsvæða, verðmætasköpunar, sameiningu sveitarfélaga, þjónustu og samfélagslegra áhrifa. Horft verði sérstaklega til bættra samgangna með jarðgöngum innan sameinaðra sveitarfélaga, svo sem á sunnanverðum Vestfjörðum, undir Hálfdán, Mikladal og Kleifaheiði. Slík jarðgangnaáætlun yrði mikilvægt gagn fyrir baráttu Vestfirðinga fyrir nútímasamgöngum og nauðsynlegt innlegg í jarðgangnaáætlun ríkisins sem nú er til endurskoðunar.“

„Bæjarráð Vesturbyggðar leggur til við Fjórðungssamband Vestfirðinga að skorað verði á samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, umhverfis- og auðlindaráðherra, Vegagerðina, Skipulagsstofnun og aðra sem koma að undirbúningi bættra samgangna um Vestfjarðaveg (60) um Bíldudalsveg og Dynjandisheiði (63), að þeirri vinnu verði flýtt, þar sem opnun Dýrafjarðagangna verður að öllu óbreyttu í september 2020.“

 

DEILA