Vesturbyggð: vill ekki stóra sameiningu á Vestfjörðum

Patreksfjörður. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bæjarráð Vesturbyggðar telur ekki tímabært að huga að sameiningu allra sveitarfélaga á Vestfjörðum  þar sem samgöngur milli svæða eru enn  óboðlegar. Þá vill bæjarráðið ekki að Fjórðungssambandið leiði eða beiti sér fyrir sameiningu sveitarfélaga á Vestfjörðum heldur veiti sveitarfélögum svigrúm til að ræða sín á milli. Bæjarráðið sendir ályktunina til Fjórðungsþings Vestfirðinga, sem tillögu að ályktun þingsins um sameiningu sveitarfélaga. Fjórðungsþingið hefst í dag.

 

Ályktunin í heild:

„Það er verkefni einstakra sveitarfélaga á Vestfjörðum að kanna vilja sinna íbúa til sameiningar. Bæjarráð Vesturbyggðar leggst því gegn því að stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga leiði eða beiti sér í málefnum um sameiningu sveitarfélaga skv. þingsályktun um Stefnumótandi áætlun í málefnum sveitar­félaga fyrir árin 2019?2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019-2023.

Þá telur bæjarráð Vesturbyggðar að ekki sé komið að þeim tímamótum, að unnt sé að horfa til heildstæðrar sameiningar allra sveitarfélaga á Vestfjörðum, þar sem enn eru samgöngur innan svæða sem og á milli svæða óboðlegar. Á árinu 2019 eru enn mörg svæði og byggðakjarnar innan Vestfjarða sem ekki er unnt að horfa á sem eitt atvinnusvæði allt árið um kring.

Það er því nauðsynlegt að sveitarfélögin fái það svigrúm sem þingsályktunin gerir ráð fyrir til að ræða sín á milli um frekari sameiningar og samgönguúrbætur, áður en horft verði til sameiningar Vestfjarða í heild sinni.“

DEILA