Vestfirðir – öll hættumerkin rauð

Mannfjöldaspá Byggðastofnunar var nýlega uppfærð. Spáð er að fram til 2067 muni íbúum Vestfjarða fækka um 2/3 frá því sem nú er. Gangi spáin eftir fækkar Vestfirðingum úr 7.000 í 2500 manns. Í Ísafjarðabæ mun íbúum fækka um nærri helming.  Í Vesturbyggð og Bolungavík mun fækka úr 1000 manns í 400 manns.  Forsenda spárinnar er að framtíðin þróist eins og síðustu áratugir.

 

Síðustu þrjátíu ár hefur  verið nokkurn vegin samfelld fólksfækkun á Vestfjörðum. Íbúum hefur fækkað úr 11.000 í 7.000 manns. Það er fækkun um þriðjung. Mannfjöldaspá Byggðastofnunar þarf ekki að koma á óvart. Það eru skilaboðin frá Byggðastofnun. Rauðari verða hættumerkin ekki.

 

Lægra eignaverð og minni eignamyndun

Gögn Byggðastofnunar um mat á fasteignum og upplýsingar Hagstofnunnar um hækkun skuldlausrar eigna fjölskyldna segja líka alvarlega sögu fyrir Vestfirðinga.

Byggðastofnun hefur frá 2010 reiknað út fasteignamat á nokkrum stöðum á landinu á tilteknu íbúðarhúsi. Þrjú af fjórum sveitarfélögum landsins þar sem fasteignamat þessa húss er hvað lægst  eru á Vestfjörðum og í þeim öllum er verðið langt undir kostnaðarverði. Á þessu tímabili hefur verið mikil almenn hækkun á íbúðaverði, einkum á höfuðborgarsvæðinu, þar sem verðið er hærra en byggingarkostnaður.  Á Vestfjörðum hefur hækkunin verið minni  og minnst á Ísafirði, þar sem fasteignaverðið er þó skást á Vestfjörðum. Það þýðir að dregið hefur í sundur með Ísafirði og höfuðborgarsvæðinu.

33,5 milljónir króna aukning hverrar fjölskyldu

Hagstofan birti nýlega greiningu um þróun eigna fjölskyldna síðustu árin. Þar kemur fram að skuldlaust eigið fé fjölskyldna landsins hefur þrefaldast frá 2010 til 2018. Það var um síðustu ára 4.744 milljarðar króna en voru 1.565 milljarðar króna í lok árs 2010. Aukningin á þessum góðæristíma  nemur að meðaltali 33,5 milljónir króna á hverja fjögurra manna fjölskyldu landsins. Um 80% af þessari skuldlausu eignaaukningu kemur fram í hækkun á verði fasteigna.

Vaxandi þjóðarframleiðsla á þessum árum skilar nýjum verðmætum upp á hundruð milljarða króna á hverju ári og þessi verðmæti birtast að lokum einhvers staðar í eignaverði. Tölur Hagstofunnar segja að þessi verðmæti liggi fyrst og fremst í íbúðaverði. Rúmlega ¾ af 2.555 milljarða króna eignaaukningunni í fasteignum frá 2010 til 2018 fellur til á höfuðborgarsvæðinu þar sem 64% íbúanna búa.

Hagvöxturinn frá 2010 hefur skilað gríðarlegum árlegum auknum verðmætum. Þeim er misjafnlega dreift um þjóðfélagið. Tekjuháir hafa fengið miklu meira en tekjulágir. En þeir sem eiga eignir á höfuðborgarsvæðinu hafa lika fengið miklu meira en íbúðaeigendur á Vestfjörðum. Munurinn er um fjórfaldur.  Ójöfnuðurinn hefur stórlega vaxið í þjóðfélaginu. Vaxandi ójöfnuður veikir landsbyggðina og sérstaklega Vestfirði.

Atvinna og tekjur

Stóra ráðandi atriðið varðandi íbúaþróun eru atvinna og tekjumögleikar.  Fólk færir sig til tækifæra að þessu leyti. Fólksfækkunin á Vestfjörðum síðustu þrátíu árin er fyrst og fremst vegna samdráttar í sjávarútvegi. Upp úr 1990 var veiði úr þorskstofninum skorin niður um helming að jafnaði og um 2/3 þegar mest var. Fyrirtækin stóðu ekki af sér slíkan samdrátt. Minni veiði þýddi minni minna og lægri tekjur. Síðan hefur tækniþróun fækkað störfum í sjávarútvegi um mörg þúsund. Þegar ekki koma önnur störf í staðinn verður þetta niðurstaðan.

Laxeldið í sjó sem er verið að byggja upp á Vestfjörðum hefur sýnt  svo ótvírætt er að ef tækifærin eru til staðar þá kemur fólkið og nýtir þau. Þar sem laxeldið er komið á veg er íbúaþróunin á betri veg. Þar er líka fasteignaverðið á uppleið. Atvinnu fylgja tekjur. Tekjum fylgir kaupgeta og eftirspurn.

Stórfellt uppbygging fiskeldis í sjó er stóra tækifæri Vestfirðinga. Það mun skila milljarðatugum króna árlega í þjóðarbúið en það mun sérstaklega styrkja byggðirnar þar sem atvinnustarfsemin verður.

Auðlindir og atvinna

Sjórinn og firðirnir eru  auðlindir Vestfirðinga.  Firðirnar verða ekki nýttir til fiskeldis nema á staðnum. Þess vegna mun fiskeldið verða Vestfirðingum lyftistöng.

Fiskimiðin eiga að vera það líka. En eru það ekki. Fyrir því eru kerfislægar ástæður. Ávinningurinn af hagræðingu og hækkandi heimsmarkaðsverði  á fiskafurðum kemur fram í verðinu sem fyrirtækin greiða fyrir aðganginn að miðunum. Þessi ávinningur var einkavæddur og nýtist ekki til uppbyggingar í byggðarlögunum. Nýting miðanna fyrir Vestfjörðum er opin og ekkert er greitt til Vestfjarða fyrir nýtinguna.

Það er staðreynd að greiddar eru háar fjárhæðir fyrir aðganginn að miðunum. Það er líka staðreynd að aðgangsverðið er komið inn í kostnað allra sjávarútvegsfyrirtækja sem greiða verðið. Spurningin er bara hver fær greitt, fáeinir einstaklingar eða almannasjóðir. Byggðirnar á Vestfjörðum eiga að fá tekjurnar að miklu leyti. Fjárhæðirnar nema tugum milljarða króna á hverju ári. Þau verðmæti munu bæta samfélögin og auka atvinnu. Þjónusta styrkist og lífskjör batna og Vestfirðingar fá réttmætan hlut í aukinni þjóðarframleiðslu, ef þetta gengur eftir.

 

Þetta þarf að gera til þess að hnekkja spá Byggðastofnunar, grípa til róttækra kerfisbreytinga.

Kristinn H. Gunnarsson

 

DEILA