Verkalýðsfélag Vestfirðinga gagnrýnir Samband ísl. sveitarfélaga

Frá 1. maí 2019. Mynd: Þorsteinn Tómasson.

Stjórn Verkalýðsfélags Vestfirðinga  hefur sent frá sér harðorða ályktun um brottvísun tveggja sveitarfélag á Vestfjörðum úr launasamráði sveitarfélaga. Segir stjórnin að aðgerðin sé valdníðsla gagnvart minni sveitarfélögum í landinu.

„Verkalýðsfélag Vestfirðinga lýsir yfir furðu sinni með það ægivald sem samninganefnd sveitarfélaga hefur tekið sér með því að vísa sveitarfélögum, sem greiddu lægstlaunaða starfsfólkinu innágreiðslu vegna tafa á kjarasamningsgerð, úr samningaráði sveitarfélaganna. Slík aðgerð er bæði forkastanleg og lýsir valdníðslu gagnvart minni sveitafélögum í landinu.

 

Jafnframt lýsir stjórn félagsins yfir vonbrigðum með það sem virðist vera orðið að markmiði hjá samninganefnd sveitarfélaga að beita hroka og yfirgangi í samningaviðræðum frekar en gera kjarasamning. Nægir þar að vísa í ákvörðun samninganefndar sveitarfélaga að kæra niðurstöðu Félagsdóms í deilu SGS til Hæstaréttar.   

 

Tvö af þeim sveitarfélögum sem var vísað úr samningaráði sveitarfélaganna, Súðavíkur- og Reykhólahreppir, eru á félagssvæði Verk Vest. Sveitarfélögin tvö hafa lýst yfir vilja til að ganga til kjarasamninga vegna starfsmanna þeirra sem falla undir kjarasamninga Verk Vest við sveitarfélögin.  Stjórn Verk Vest fagnar afstöðu sveitarfélaganna tveggja og lýsir yfir skýrum vilja til að hefja viðræður við sveitarfélögin tvö á grundvelli kröfugerðar Verk Vest.“

DEILA