Vegamál: Strandasýsla sett á 2. tímabil

Úr tillögu að samgönguáætlun 2020-2034.

Framkvæmdir í Strandasýslu, sem lengi hefur verið beðið eftir, eru setta á 2. tímabil samgönguáætlunar , árin 2025 – 29, í 15 ára samgönguáætlun sem Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra kynnti í gær.

Aðeins tvær framkvæmdir í áætluninni eru í Strandasýslu. Það eru annars vegar Innstrandarvegur, Heydalsá – Þorpar í Tungusveit og hins vegar Veiðileysuháls í Árneshreppi.

Fyrri framkvæmdin er til þess að ljúka endurbyggingu á 5 km löngum kafla. Áætlaður kostnaður er 300 milljónir króna. Seinni framkvæmdin varðar vetrarfærð norður í Árneshrepp. Veiðileysihálsinn hefur lengi verið slæmur farartími að vetrarlagi. Ætlunin er að endurbyggja 12 km langan vegarkafla upp úr Veiðileysufirðinum og yfir hálsinn niður í Reykjarfjörðinn. Kostnaður er áætlaður 750 milljónir króna.

Ekki er að finna aðrar framkvæmdir í Strandasýslu á þessu 15 ára tímabili frá 2020 – 2034.

Í greinargerð með tillögunni segir að ekkert sé fjallað um framkvæmdir á 3. tímabili áætlunarinnar sem kosti minna en 1 milljarð króna. Nefnd eru nokkur dæmi um verkefni sem þetta á við. Tvö þeirra eru á Vestfjörðum : Örlygshafnarvegur, Hvalsker-Sauðlauksdalsvegur  og Djúpvegur um Súðavíkurhlíð, snjóflóðavarnir. Ekki eru nefnd verkefni í Strandasýslu. Það er þó ekki fullvíst að frekari verkefni í Strandasýslu komi ekki til greina.

Bæði þessi verkefni í Strandasýslu voru á samgönguáætlun fyrir árin 2015-18 sem samþykkt var á Alþingi 12. október 2016. Í Innstrandaveg var 50 milljón króna fjárveiting 2018 til að hefja framkvæmdir það ár og sömuleiðis var 200 milljón króna fjárveiting 2018 til að hefast handa við Veiðileysuháls. Bæði verkin ættu nú að vera komin vel af stað samkvæmt þeirri áætlun.

Ekkert hefur gerst ennþá og nú færast þessi verk til áranna 2025-29 miðað við nýjustu samgönguáætlunartillögu Samgönguráðherra.

DEILA