Nærri 33% íbúa Árneshrepps eru 67 ára og eldri. Þetta kemur fram í úttekt sem Haraldur Líndal Haraldsson gerði fyrir Bolungavíkurkaupstað. Eitt af því sem hann skoðaði var aldursdreifing íbúa í sveitarfélögunum á Vestfjörðum og bar það saman við landsmeðaltalið. Er í úttektinni miðað við upplýsingar í janúar 2018.
Landsmeðaltalið er 12,1% fyrir þennan aldursflokk. Á Vestfjörðum er hlutfallið hærra í fimm sveitarfélögum og lægra í fjórum. Langæst er það í Árneshrepp sem fyrr segir, nærri því þrefalt hærra en landsmeðaltalið. Þá er hlutfall eldri borgara hærra en landsmeðaltalið í Kaldrananesnhreppi 17,4%, Reykhólahreppi16,7%, Strandabyggð 16,2% og í Ísafjarðarbæ 14,1%.
Undir landsmeðaltali eru Súðavíkurhreppur, þar sem hlutfallið er lægst á Vestfjörðum 9,7%, Tálknafjörður 10,2%, Bolungavík 11,7% og Vesturbyggð 11,9%.
Í Reykhólahreppi er hæst hlutfall íbúa 16 ára og yngri. Þar eru 26,6% íbúanna á þeim aldri. Landsmeðaltalið er 21,8%. Önnur sveitarfélög á Vestfjörðum með hátt hlutfall yngri kynslóðarinnar eru Bolungavík með 23,5% og Vesturbyggð 21,8%. Önnur vestfirsk sveitarfélög eru undir landsmeðaltalinu. Í Ísafjarðarbæ og á Tálknafirði er hlutfallið 20,5% og 19,9% í Súðavík.