Strandabyggð: framkvæmdir fóru 14 milljónir króna fram úr áætlun

Sveitarstjórn Strandabyggðar samþykkti breytingar á fjárhagsáætlun á fundi sínum í gær. Þrjár framkvæmdir fóru nokkuð fram úr áætlun. Til slökkvibíls var þörf á 5,1 milljón króna hækkun en ekki var gert ráð fyrir fjárveitingu í fjárhagsáætlun. Framkvæmdir við íþróttamiðstöð fóru 4 milljónir króna fram úr áætlun og urðu 18 milljónir króna. Yfirlögn á götum kostuðu 11,5 milljónir króna er gert hafði verið ráð fyrir 8 milljónum króna til verksins. Þá fór viðhald á Þróunarsetrinu 1,3 milljónir fram úr áætlun sem var 500 þúsund krónur.

Ákveðið var að lækka fjárveitingar til annarra framkvæmda til mótvægis. Til leikskóla og grunnskóla var lækkað framlagi um 3,5 milljónir króna. Fjárveitingar til réttar í Staðardal og endurbóta á Bragganum, samtals 2,5 milljónir króna  voru teknar út. Að teknu tilliti til þess var hækkun til framkvæmda um 7,9 milljónir króna sem mætt er með lántöku.

DEILA