
Á nýafstöðnum aðalfundi Landssambands smábátaeigenda var gerð samþykkt um framtíð línuívilnunar. Þar var tekin fyrir og samþykkt tillaga Eldingar, félags smábátaeigenda á norðanverðum Vestfjörðum.
Guðmundur Halldórsson, skipstjóri í Bolungavík lagði samhljóða tillögu fram á fundi á Ísafirði fyrir nokkrum vikum með sérstakri nefnd sjávarútvegsráðherra sem á að gera tillögur um ráðstöfun aflaheimilda til byggðakvóta, linuívilnunar o.fl.
Aðalfundurinn mótmælti sérstaklega harðlega skerðingu á viðmiðunarafla til línuívilnunar sem verið hefur síðustu tvö fiskveiðiár.
30% ívilnun
Aðalfundur Landssambands smábátaeigenda skoraði á sjávarútvegsráðherra að breyta ákvæði laga um línuívilnun þannig að hún gildi fyrir alla dagróðrabáta minni en 30 brúttótonn og styttri en 15 metrar. Verði 30% við landbeitningu, 20% við uppstokkun og 10% fyrir vélabáta.
45% ívilnun í ýsu
Aðalfundur Landssambands smábátaeigenda krefst þess að línuívilnun í ýsu verði 45% fyrir landbeitningu, 30% við uppstokkun og 15% fyrir vélabáta.
Byggðakvóti verði ívilnun
Þá ályktsaði aðalfundurinn um byggðakvóta og vill að honum verði úthlutað sem ívilnun við löndun.