Skorar á ráðherra að svíkja ekki Árneshrepp

Bjarni Jónsson, varaþingmaður Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi.

Bjarni Jónsson, varaþingmaður var á Alþingi í síðustu viku í fjarveru Lilju Rafney Magnúsdóttur.

Á þriðjudaginn notaði hann tækifærið og kvaddi sér hljóðs um gleymda sveitavegi og ræddi þar meðal annars um Veiðileysiháls.

Fólk á betra skilið

„Ég vil ræða gleymda sveitavegi og gleymd byggðarlög í tillögu að samgönguáætlun. Ég vil skora á Alþingi og samgönguráðherra að svíkja ekki Árneshrepp og Strandamenn um marglofaðar vegabætur til að tryggja heilsárssamgöngur í byggðarlagið með vegabótum um Veiðileysuháls. Það er nístandi að sjá þeim framkvæmdum enn slegið á frest í tillögu að samgönguáætlun. Ef þingheimur kemst að þeirri kaldrifjuðu niðurstöðu er verið að slá af eitt brothættasta byggðarlag landsins, Árneshrepp. Fólkið á betra skilið.“ 

Þá lagði Bjarni fram skriflega fyrirspurn um nokkra sveitavegi, meðal þeirra Innstrandarveg í Tungusveit við Steingrímsfjörð. Spurt er hve miklum fjármunum verði varið á næsta ári til viðhalds og uppbyggingar á veginum og hvort  ráðherra telji þá fjármuni fullnægjnadi til endurbóta.

Loks er spurt  hvort fyrir liggi tímasett áætlun um hvenær bundið slitlag verði lagt á vegarkaflann sem eftir er og hvenær framkvæmdum verður lokið. 

Fyrirspurnunum verður svarað fljótlega.

 

DEILA