Skammaði þingmenn og vill annan formann samgöngunefndar Alþingis

Bryndís Sigurðardóttir, sveitarstjóri Tálknafjarðarhrepps. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bryndís Sigurðardóttir, sveitarstjóri Tálknafjarðarhrepps sendi alþingismönnum tóninn á fundi vestfirskra sveitarstjórnarmanna  með þingmönnum Norðvesturkjördæmis í Flókalundi í lok síðasta mánaðar.  Fann hún að því að þingmenn hafi ekki komið í veg fyrir að Bergþór Ólason var kosinn formaður Umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis.

Bryndís sagði við Bæjarins besta að „hér á sunnanverðum Vestfjörðum er hefð fyrir því að konur séu í forsvari í sveitarstjórnarmálum, við þurfum mjög mikið að leita til og eiga góð samskipti við Umhverfis- og samgöngunefnd. Mér er gróflega misboðið að þurfa að leita til manns sem hefur hagað sér eins og þessi maður gerði.“ Hún sagði að orðum sínum hefði ekki sérstaklega verið beint til þingmanna kjördæmisins heldur til allra þingmanna.

Bryndís Sigurðardóttir segir ennfremur að umhverfis- og samgöngunefndin sé Vestfirðingum ákaflega mikilvæg og „það væri móðgandi að neyða okkur til að eiga samskipti við Klausturdóna.“ Aðspurð að því hvort hún teldi að athugasemd hennar hafi bætt stöðu Vestfirðinga gagnvart nefndinni svaraði Bryndís stutt og laggott nei.

Að sögn Bryndísar voru ummæli hennar sett fram án samráðs við sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps og kvaðst hún ekki hafa í hyggju að bera þau undir hana.

Samkvæmt heimildum Bæjarins besta sló þögn á fundarmenn við ræðu Bryndísar Sigurðardóttur og enginn tók til máls. Var svo vikið að öðru máli.

Fjórðungssambandið unir ákvörðun Alþingis

Hafdís Gunnarsdóttir, formaður stjórnar Fjórðungssambands Vestfirðinga sem stóð fyrir fundinum í samráði við þingmenn kjördæmisins vildi ekki tjá sig um ummæli Bryndísar Sigurðardóttir. Hafsdís sagði að Fjórðungssambandið liti svo á að það væri á verksviði Alþingis að velja formann fyrir þingnefndum og að Fjórðungssambandið uni niðurstöðu þess. “ Við munum vinna að framgangi hagsmunamála Vestfirðinga með forystu þingnefnda og leggja okkur fram við að ná sem bestri niðurstöðu.“

Samgönguáætlun næstu ára, sem Samgönguráðherra lagði nýlega fram verður send til umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis sem mun að  lokinni umfjöllun í þingnefndinni skila af sér áliti og breytingartillögum. Formaður nefndarinnar er Bergþór Ólason, þingmaður miðflokksins fyrir Norðvesturkjördæmi. Bergþór er eini þingmaður kjördæmisins sem á sæti í nefndinni.

Þorgeir Pálsson tekur undir ummælin

Í tölvubréfi til þingmanna kjördæmisins sem Þorgeir Pálsson, sveitarstjóri Strandabyggðar sendi á þriðjudaginn í síðustu viku og fór þar yfir það sem fram kom á þingmannafundinum í Flókalundi segir hann : „ég tek heils hugar undir athugasemd sveitarstjóra Tálknafjarðarhrepps sem kom fram undir lok þingmannafundar, varðandi formannskjör í Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis.“

Aðspurður segir Þorgeir að hann tali sem sveitarstjóri Strandabyggðar en ekki sé þar með sagt að allt sem hann segi sé opinber skoðun sveitarstjórnar. Hann segir að sveitarstjórn sé upplýst um afstöðu hans til þessa formannskjörs og hafi þegar [í gær] séð póstinn til þingmanna.

DEILA