Sjö árum síðar

Aðdragandi þjóðaratkvæðagreiðslunnar um nýju stjórnarskrána 20. október 2012 var merkilegur fyrir margra hluta sakir. Það var einnig atkvæðagreiðslan sjálf og úrslit hennar.

Þið munið hvað gerðist. Bankamenn, sem voru sumir síðan dæmdir til fangavistar, og stjórnmálamenn, sem var hlíft, lögðu landið á hliðina 2008. Fólkið reis upp, barði potta og pönnur og heimtaði stórhreingerningu og nýja stjórnarskrá. Alþingi lét undan, boðaði til þjóðfundar 2010 og lét kjósa Stjórnlagaráð sem samdi frumvarp 2011 í samræmi við niðurstöðu þjóðfundarins. Frumvarpið var samþykkt með 67% atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012. Þá var það eitt eftir að Alþingi lyki málinu með því að staðfesta frumvarpið fyrir kosningarnar 2013. Alþingi brást og bisar nú við að semja eigin stjórnarskrá, stjórnarskrá flokkanna og útvegsfyrirtækjanna frekar en stjórnarskrá fólksins. Atgangur Alþingis er atlaga að lýðræðinu í landinu, réttnefnd tilraun til valdaráns.

Við þurfum að nefna hlutina réttum nöfnum. Fjórflokkurinn, sem Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra nefndi því nafni 2010, situr fastur í herkví útvegsfyrirtækjanna og hefur ekki þrek til að losa sig þótt þjóðaratkvæðagreiðslan hafi veitt honum fullkomið færi til þess. Þingmenn gátu þá sagt við útvegsmenn: „Þjóðin hefur talað. Þið þurfið héðan í frá að greiða fullt gjald fyrir kvótann.“ Rannsóknarnefnd Alþingis upplýsti í skýrslu sinni 2010 að föllnu bankarnir styrktu stjórnmálamenn og flokka 2004-2008 um 300 mkr. á núvirði. Það jafngildir nærri 2.000 kr. á hvert greitt atkvæði í alþingiskosningunum 2007. Það þarf engin geimvísindi til að geta sér til um að útvegsfyrirtæki hafi séð sér hag í að hafa sama háttinn á og bankanir, sem keyptu sér frið til að rýja fórnarlömb sín inn að beini. Tólfta hver fjölskylda í landinu missti heimili sitt eftir hrun. Vonandi þarf ekki nýtt hrun til að leiða fram upplýsingar um fjárhagstengsl útvegsfyrirtækja við stjórnmálamenn og flokka.

Úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar voru merkileg fyrir margra hluta sakir. Þau útkljáðu tvö helztu deilumál stjórnmálanna marga áratugi aftur í tímann, annars vegar kvótamálið (83% kjósenda lýstu sig fylgjandi auðlindum í þjóðareigu) og hins vegar kjördæmamálið (67% kjósenda lýsti stuðningi við jafnt vægi atkvæða). Í annan stað sýndu úrslitin ríkan samhug þéttbýlis og landsbyggðar. Stuðningurinn við frumvarpið í heild í NV-kjördæmi var 55%, stuðningurinn við auðlindir í þjóðareigu var 70%, og stuðningurinn við jafnt vægi atkvæða var 38%. NV-kjördæmi og NA-kjördæmi eru einu kjördæmin þar sem jafnt vægi atkvæða naut ekki stuðnings meiri hluta kjósenda.

Sú staðreynd að meiri hluti kjósenda í NV-kjördæmi studdi frumvarpið í heild og einnig auðlindaákvæðið en ekki kosningaákvæðið bendir til að kjósendur í kjördæminu hafi talið hagsbætur fyrir tilstilli auðlindaákvæðisins gera meira en að bæta fyrir jafnt vægi atkvæða. Það er rökræn ályktun. Ákvæðið um auðlindir í þjóðareigu með innheimtu fulls gjalds fyrir kvótann myndi gerbreyta ástandi og andrúmslofti NV-kjördæmis til hins betra, bæði með hlutdeild kjördæmisins í ráðstöfun gjaldsins til fólksins í landinu og með því að draga úr veldi útvegsfyrirtækja í krafti kvótans sem fyrirtækjunum hefur hingað til liðizt að fara með sem sína einkaeign að heita má. Ein mikilvægustu rökin fyrir auðlindum í þjóðareigu eru valddreifingarrök: rökin fyrir því að dreifa valdi frá sérdrægum forréttindahópum til fólksins.

Einmitt þetta er rauði þráðurinn í nýju stjórnarskránni sem hefst á þessum orðum: „Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð.“

Þorvaldur Gylfason

DEILA