SIT-nemendur heimsækja Hesteyri

SIT nemendur í heimsókn á Hesteyri. Mynd: Háskólasetur Vestfjarða.

Tveir hópar nemenda á vegum SIT-skólans (School for International Training), samstarfsaðila Háskólaseturs, hafa undanfarið dvalið við nám á Ísafirði. Loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á umhverfi er viðfangsefni beggja hópanna, en annar hópurinn einbeitir sér að loftslagsbreytingum á Norðurslóðum á meðan hinn skoðar þetta í hnattrænu samhengi. Fagstjórar þessara námsleiða eru Dan Govoni sem er búsettur á Ísafirði og Jill Welter sem, dvelur hér með sínum hópi.

Vettvangsferðir eru mikilvægur hluti námsins hjá báðum hópum en þar læra nemendur að tengja þær kenningar sem þeir læra um við veruleikann. Þessar ferðir hafa þó einnig það markmið að kynna náttúru, sögu, samfélag og menningu fyrir nemendurna. Nýlega var Kaldalón og nærumhverfi Drangajökuls heimsótt en leiðsögumaður í ferðinni var Jón Kristinn Helgason, jarðfræðingur við Snjóflóðasetur Veðurstofunnar á Ísafirði. Í þarsíðustu viku var svo haldið með báti til Hesteyrar í Jökulfjörðum. Á leið yfir Ísafjarðardjúpið sáust hnúfubakar leika sér og fékk hópurinn því óvænt stutta hvalaskoðun. Á Hesteyri var gengið um þorpið með leiðsögumanni sem fræddu nemendunum um friðlandið á Hornströndum og gaf þeim innsýn í sögu þorpsins sem og svæðisins, t.a.m. áhrif af hvalveiðum Norðmanna, hvers vegna svæðið var yfirgefeið á 6. áratug síðustu aldar og pælt var í hvort þarna eru sýnileg áhrif af loftslagsbreytingum. Rölt var inn að rústum gömlu hvalveiðistöðvarinnar að Stekkeyri og skoðað sig um. Haustlitirnir skörtuðu sínu fegursta í þessum friðsæla firði og veðrið lék við hópinn. Eftir vel heppnaða og fróðlega heimsókn var siglt heim til Ísafjarðar síðdegis sama dag.

DEILA