Send í sveit – málþing á Ströndum í kvöld

Senn koma út tvær bækur um siðinn að senda börn í sveit. Önnur nefnist Send í sveit: Þetta var í þjóðarsálinni. Sú er safn fræðigreina um siðinn frá upphafi til okkar daga. Þar fjalla mannfræðingar, þjóðfræðingar, lýðheilsufræðingar, safnafræðingar, bókmenntafræðingar og félagsráðgjafar um sínar rannsóknir á siðnum með fjölbreyttum hætti og frá ólíkum sjónarhornum. Hin bókin nefnist Send í sveit: Súrt, saltað og heimabakað. Í henni birtast stuttar umfjallanir um ólík viðfangsefni tengd siðnum, þar sem stuðst er við myndir, frásagnir einstaklinga, bókmenntatexta og fjölmiðlaumfjallanir. Sú seinni er frekar miðuð að almennum lesendum.

Í báðum bókunum eru Strandir sérstaklega til umfjöllunar og þá einkum upplifanir bænda, húsfreyja og barna sem ólust upp á svæðinu af því að opna heimili sín fyrir börnum annarra fjórðung úr ári. Ástæðan fyrir þessari áherslu er sú að fræðafólk búsett á Ströndum hefur tekið þátt í þessu merkilega verkefni sem Jónína Einarsdóttir mannfræðingur og prófessor við HÍ stjórnar. Esther Ösp Valdimarsdóttir mannfræðingur og Eiríkur Valdimarsson þjóðfræðingur hafa bæði unnið að rannsókninni og eru meðal höfunda bókanna. Einnig settu Esther Ösp og Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðingur upp tímabundna sögusýningu á Sauðfjársetri á Ströndum um siðinn að börn færu í sveit. Sú sýning hefur verið þar uppi frá haustinu 2016. Bæði Eiríkur og Dagrún starfa nú hjá Rannsóknasetri HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofu.

Kvöldvaka og málþing verður í kvöld á Sauðfjársetrinu í Sævangi við Steingrímsfjörð á Ströndum, mánudaginn 14. október kl. 20. Þessa kvöldstund munu valdir höfundar flytja erindi byggð á sínum rannsóknum á efninu, kynna bækurnar og taka þátt í umræðum með gestum og gangandi. Viðburðurinn er styrktur af sveitarfélaginu Strandabyggð.

Erindi kvöldins eru:

Eiríkur Valdimarsson: Sveitasamviska
Jónína Einarsdóttir: Send í sveit í þágu þjóðar
Geir Gunnlaugsson: Hvernig var í sveitinni?
Esther Ösp Valdimarsdóttir: Hvað segja bændur þá?

Jón Jónsson þjóðfræðingur hjá Rannsóknarsetri HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofu stýrir umræðum og Sauðfjársetrið reiðir fram kvöldkaffi að sveitasið á litlar 1000 krónur fyrir þá sem þess óska. Aðgangur er ókeypis og öll velkomin.

DEILA