Raforka er meðal grunnstoða samfélagsins

Samtök iðnaðarins kynntu í gær skýrslu um íslenska raforku – ávinning og samkeppnishæfni. í inngangi segir að nýting raforku gegni lykilhlutverki í verðmætasköpun á Íslandi og að fjórðungur útflutningstekna þjóðarinnar byggir á framleiðslu og nýtingu á raforku.  Þá er bent á að fjórða iðnbyltingin er að miklu leyti raforkuknúin og „er því mikilvægt að vel takist til við að skapa samkeppnishæfa umgjörð um framleiðslu, dreifingu og nýtingu raforku til framtíðar litið.“  Aðgengi að raforku er talinn mikilvægur þáttur í samkeppnishæfni atvinnulífs og „flutningskerfi raforku er ein af lykilstoðum innviða í landinu sem þjónar bæði heimilum og fyrirtækjum.“

Raforkukerfið bætir lífskjörin

„Án raforkukerfisins væri atvinnulíf fábreyttara og lífsgæði lakari en ella. Aðgengi að raforku þarf að vera tryggt fyrir bæði heimili og atvinnulíf, auk þess sem raforkuverð þarf að vera sanngjarnt, innviðir traustir, regluverk skýrt og eftirlit á raforkumarkaði virkt.“

Stefnumörkun stjórnvalda hefur áhrif á ákvarðanir almennings og fyrirtækja heilt yfir. Stefnumörkun í orkumálum hefur ekki eingöngu áhrif á raforkufyrirtæki heldur á samfélagið allt. Það er því verulegt hagsmunamál að regluverk og stefnumörkun taki mið af hagsmunum allra þeirra sem nota raforku en ekki eingöngu orkufyrirtækja.

Land endurnýjanlegra orkugjafa

Í skýrslunni er vakin athygli á því að Ísland nýtur mikillar sérstöðu í heiminum þar sem 99,9% af raforku á Íslandi er framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum með lítilli losun gróðurhúsalofttegunda. Jarðefnaeldsneyti er eingöngu nýtt á afmörkuðum svæðum eða sem varaafl hér á landi. Raforkuvinnsla skiptist þannig á milli orkugjafa að vatnsorka er 69,7%, jarðhiti 30,3% og vindorka 0,02%.

Stóriðja í 50 ár bætir lífskjörin

Í ár eru 50 ár síðan stóriðjan hófst á Íslandi með álverinu í Straumsvík. Metin eru efnahagslegu áhrifin og segir að frá upphafi stóriðjunnar hafi farið  að skilja verulega á milli efnahagslegrar velmegunar hér á landi og í flestum öðrum Evrópuríkjum. „Landsframleiðsla á mann, sem er einn mælikvarði á efnahagslega velmegun, fór á þessum tíma úr því að vera til jafns við meðaltal Evrópu yfir í að vera nú tæplega 50% meiri.“

Áætlað er  að framlag stórnotenda raforku til verðmætasköpunar hér á landi hafi verið um 2.100 ma.kr.  Þá er metið beint framlag greinarinnar til landsframleiðslu og óbeint framlag, þ.e. sá virðisauki sem greinin skapar í viðskiptum sínum við aðrar greinar. Til að setja þetta í samhengi þá var landsframleiðslan í heild hér á landi 2.812 ma.kr. á árinu 2018. Fjárfestingar á tímabilinu tengdar stóriðju og raforkuframleiðslu hennar vegna eru  samanlagt um 1.600 milljarðar króna.

Gjaldeyrissköpun stórnotenda raforku er nú orðin meiri en heildargjaldeyristekjur af útflutningi sjávarafurða eða um 260 ma.kr. á árinu 2018 segir í skýrslunni . Vöxtur þessarar greinar hefur aukið stöðugleika hagkerfisins til heilla fyrir fyrirtæki og heimili í landinu.

DEILA