Núpur seldur

Ríkið hefur selt Núp í Dýrafirði. Kaupin voru frágengin í byrjun mánaðarins og eignir hafa verið afhentar. Kaupandi er einkahlutafélagið Hér og Nú, sem er í eigu tveggja félaga. Hafsteinn Helgason, verkfræðingur hjá Eflu er einn kaupenda.

Hafsteinn sagði í samtali við Bæjarins besta að nafnið væri skírskotun til Héraðsskólans á Núpi og að þess að gestir gætu upplifað sig sem einstakling hér og nú. Hugur kaupenda stæði til þess að glæða staðinn aftur lífi.

Hann sagði að sem stendur stæði yfir nokkurs konar hugarflug hjá eigendum þar sem farið væri yfir ýmsar hugmyndir um starfsemi á Núpi. „Við erum að reyna að búa til viðskiptamódel  sem er nýtt, spennandi og á góðum verðum“ segir Hafsteinn, sem sjálfur er búsettur á Suðurlandi. „Við viljum bjóða upp á meira en gistingu og nýta kosti svæðisins fyrir ferðamenn.“ Hann segir að um miðjan nóvember vonist hann eftir því að hafa betri drög að áætlun sem hægt verði að kanna viðbrögð við. Skemmtilegast væri, segir Hafsteinn, ef hægt væri að vera með þjálfun og skólahald auk ferðaþjónustunnar. Þegar hafa aðilar haft samband, að sögn Hafsteins, sem vilja reka sumarhótel á Núpi.

Nýju eigendurnir eru þegar byrjaðir að gera breytingar á Núpi.  Verið er að setja upp varmadælukerfi í hluta af húsnæðinu. Það gæti lækkað kostnaðinn við kyndinguna um 60% segir Hafsteinn. Það verkefni er á lokametrununum. Hann segir eignirnar að hluta til í góðu standi og að að hluta til þurfi mikið viðhald.

DEILA