Náttúrulegar orsakir helsta skýringin

Í Fréttablaðinu á þriðjudaginn var sagt frá því að vísindaráð, sem Umhverfisstofnun Noregs hefur komið á fót, hefði komist að þeirri niðurstöðu í nýrri skýrslu, að laxeldi í sjó væri helsta ógn við villtan lax í Noregi. Nánar tiltekið segir í fréttinni að sleppifiskur úr laxeldi, laxalús og sýkingar sem tengjast laxeldi séu stærsta ógnir af mannavöldum við norskan villtan lax.  Í ráðinu sitja þrettán óháðir vísindamenn.

Bæjarins besta leitaði til Einars K. Guðfinnsonar, sem starfar að fiskeldismálum hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og óskaði eftir viðbrögðum hans við skýrslunni.

Einar sagði að eftir að hafa kynnt sér skýrsluna drægi hann fram þessi atriði:

  1. Endurkoma villta laxins í norskar ár er núna helmingur þess sem var fyrir 30 árum. Afföll villta laxins í sjó hafa því aukist. – Þó það sé ekki sagt í skýrslunni er augljóst að laxeldi verður ekki um það kennt. Þar eru einfaldlega á ferðinni náttúrlegar orsakir, breytt hitastig í sjónum, umhverfisbreytingar osfrv.
  2. Þrátt fyrir þetta hefur hrygning í ánum aukist og möguleikar til hrygningar eru fullnýttir. – Vandinn virðist þá frekar vera sá að eftir að laxinn gengur í sjó komi hann ekki til baka.
  3. Hlutfall sleppifiska í norskum ám hefur lækkað mjög mikið á undanförnum árum ( sem hlutfall af öllum fiski í ánum). Var um 20% um síðustu aldamót, en er núna innan við 4%. – Í skýrslunni er svo staðhæft að hættan á frekari afföllum í villtum laxastofnum vegna fiska sem hafa sloppið úr kvíum hafi því minnkað. Því má svo enn bæta við að þetta lága hlutfall er ekki talið hafa neikvæð áhrif á villtan fisk í ánum, m.a. skv. áhættumati Hafrannsóknastofnunar og raunar einnig norskra aðila, svo sem norsku Hafró. NINA, sem er norska Náttúrufræðistofnunin, telur að 3% sé hin eðlilega tala sem miða eigi við.
  4. Í skýrslunni segir svo orðrétt: „The risk of causing further loss due to escaped farmed salmon is reduced compared to earlier asessments due to the potential for effective mitigation measures“. – Þarna er sem sagt verið að segja að hættan á afföllum í fiskum úr villtum laxastofnum vegna áhrifa af fiski úr fiskeldi,  hafi minnkað miðað við fyrri athuganir vegna gagnlegra mótvægisaðgerða – og er þar væntanlega m.a. átt við fiskirækt, minna veiðiálags, veiðibanns o.s.frv.

 

 

 

DEILA