Matarkistan Vestfirðir – Beint frá býli

Fræðslumiðstöð Vestfjarða fer nú í haust af stað með nám fyrir bændur og smáframleiðendur sem vilja læra um fullvinnslu og markaðssetningu afurða í takt við hugmyndafræðina Beint frá býli. Unnið er út frá námskránni Matarsmiðja frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Verkefnið er samvinnuverkefni Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða og Vestfjarðarstofu.

Vestfirskir matvælaframleiðendur finna fyrir því í auknu mæli líkt og annars staðar að neytendur vilji vita hvaðan maturinn þeirra kemur. Fólk vill í auknu mæli versla beint af framleiðendum. Einnig er mikill virðisauki fólginn í því að nýta tækifærin í heimabyggð og fullvinna vöruna.

Markmið með smiðjunni er að þátttakendur öðlist skilning og getu til að vinna að vöruþróun og einfaldri framleiðslu á matvælum. Þátttakendur taka þátt í gerð uppskrifta, útreiknings á næringargildi, framlegð og rýrnun ásamt því að geta framleitt vöruna.

Námið er 80 klukkustundir, fyrirlestrar verða í fjarkennslu en verklegi þátturinn í lotu í vörusmiðju BioPol á Skagaströnd. Áætlað er að kennsla hefjist í október 2019 og ljúki í mars 2020. Áhugasamir geta snúið sé til Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða.

DEILA