Mannfjöldaspá Byggðastofnunar: mikil fólksfækkun á Vestfjörðum

Íbúaspáin fyrir Vesturbyggð.

Byggðastofnun hefur uppfært mannfjöldaspá sína. Nær hún frá árinu 2020 til 2067. Um spána segir  Byggðastofnun að spáin gefi vísbendingar um að fólki haldi áfram að fjölga á höfuðborgarsvæðinu með stöðugri fækkun víða á landsbyggðinni.

Hafa ber í huga að óvissa þessarar mannfjöldaspár er töluverð og þó að hún geti gefið þokkalega mynd af mannfjöldaþróun til skemmri tíma, t.d. 15 ára, verður að taka niðurstöðum til lengri tíma með fyrirvara. Einungis er notast við opinber gögn frá Hagstofu Íslands.

Spáin fyrir Vestfirði er að fólki munu fækka úr 7000 í um 2500 manns ef fram sem horfir. Það er ef framtíðin verður eins og fortíðin þróaðist. Það er fækkun um 2/3 af núverandi íbúafjölda. Með öðrum orðum á næstu 47 árum munu 2 af hverju 3 flytjast burt úr fjórðungnum.

 

Þegar Ísafjarðarbær er skoðaður sérstaklega er spáin sú að íbúum muni fækka úr 3.800 niður fyrir 2000 manns.  Vestfirðir að öðru leyti munu þróast á svipaða hátt og reyndar heldur lakar eða úr rúmlega 3000 manns í  um 1100 manns.  Birt er einnig spá fyrir hvert og eitt sveitarfélag á Vestfjörðum.  Í Vesturbyggð og Bolungavík mun fækka í um 400 manns. Í Tálknafirði, Súðavík , Strandabyggð og á Reykhólum er spáð að íbúafjöldinn fari niður í um 100 manns í hverju. Í Kaldrananeshreppi verði um 50-60 íbúar. Eina sveitarfélagið þar sem spáð er að íbúum gæti fjölgað er Árneshreppur.

Mannfjöldalíkan Byggðastofnunar er slembilíkan og það byggir á hlutlægum aðferðum og notast eingöngu við söguleg gögn, þ.e. engar forsendur eru fyrirfram gefnar og hvergi er notast við sérfræðiálit. Mannfjöldalíkan Byggðastofnunar byggir því á því „að fram haldi sem horfir“. Niðurstöður mannfjöldaspárinnar eru settar fram sem meðaltal og 80% spábil 10.000 slembiúrtaka líkansins og skalað við miðspá Hagstofu Íslands.

DEILA