Í bókun meirihluta skipulags- hafnar og húsnæðisnefndar Reykhólahrepps, hreppsnefndarmannanna Ingimars Ingimarssonar og Karls Kristjánssonar, er lagt til að fylgja niðurstöðum valkostagreingar Viaplans ( velja R leið, innskot) sem tengirþorpið á Reykhólum við Vestfjarðaveg 60 eins og segir í bókun þeirra. Vísa þeir sérstaklega í umsögn Landverndar máli sínu til stuðnings.
R leiðin er hins vegar líka umdeild vegna umhverfisáhrifa samkvæmt umsögnum sem bárust um aðalskipulagsbreytingarnar.
Landvernd segir í umsögn sinni sem dagsett er 25. ágúst 2019 að „í umhverfismatsskýrslum hefur komið fram að langbesti kosturinn fyrir umferðaröryggi, greiðar samgöngur og náttúruvernd er leið D2, jarðgangnaleið.“ og ennfremur segir í umsögninni:
„að á þessu einstaka svæði sem nýtur verndar skv. lögum 60/2013 og 54/1995 kemur ekki annað til greina en leið D2 sem veldur minnstu umhverfisraski“ og niðurstaðan í umsögninni er að „Stjórn Landverndar telur tvímælalaust að halda eigi áfram með leið D2 í samræmi við niðurstöðu umhverfismats“.
Um R leiðina segir aðeins í umsögn Landsverndar að „Þá hefur R leiðin jákvæð áhrif á samfélagið og mun minni neikvæð umhverfisáhrif en Þ-H leiðin skv. skýrslu Viaplan“ Ekki er í umsögninni lagt til að fara þá leið né lýst yfir stuðning við hana.
Gauti Eiríksson kennari frá Stað á Reykhólum vakti athygli á því í aðsendri grein á Bæjarins besta 28.1. 2019 https://www.bb.is/2019/01/truverdugleiki-landverndar-i-hufi/ að R leiðin hefur ekki verið umhverfismetin. Viaplan og Multiconsult leggja til R leiðina og styðjast við mat á henni við umhverfismat sem Vegagerðin lét gera við svonefnda A1 leið. Sú leið er ólík R leiðinni í grundvallaratriðum segir Gauti. Færði hann rök fyrir því að mikil umhverfisspjöll fylgdu þeirri leið. Niðurstaða Gauta var að ef umhverfið ætti að ráða þá væri R leiðin ekki svarið. Athyglisvert er að Landvernd leggur ekki til að R leiðin verði farin.
Ingimar Ingmarsson og Karl Kristjánsson sækja sér rökstuðning til Landverndar fyrir því að vera á móti Þ-H leið en fylgja ekki niðurstöðu Landverndar sem treystir sér ekki til að styðja R leiðina. Segja má að þeir leggi af stað með ákveðin umhverfisrök til að undibyggja andstöðu við Þ-H leiðina en hendi þeim sömu rökum í ruslið þegar kemur að R leiðinni og meta hana út frá allt öðrum rökum, tengingu Reykhóla við Vestfjarðaveg 60.
-k