Könnun MMR: 93% Bolvíkinga myndu greiða atkvæði gegn sameiningu

Samkvæmt könnun MMR eru 84% Bolvíkinga neikvæð gagnvart sameiningu Bolungavíkur við annað sveitarfélag. Aðspurðir hvernig þeir myndu greiða atkvæði ef kosið yrði í dag um sameiningu sögðust 93% myndu greiða atkvæði gegn sameiningu.

Þetta kom fram í máli Jóns Páls Hreinssonar, bæjarstjóra í Bolungavík á Fjórðungsþingi Vestfirðinga í dag.

Það var Bolungavíkurkaupstaður sem lét gera könnunina í því skyni að afla upplýsinga um afstöðu íbúa í Bolungavík.

Í nánari greiningu á svörunum kemur fram að 56% svarenda eru mjög neikvæð og 28% frekar neikvæð. Aðeins 4% eru frekar jákvæðir og önnur 4% eru mjög jákvæðir. Tíu prósent segjast vera hvorki jákvæð né neikvæð.

Meiri andstaða hjá ungum kjósendum

Alls fengust 158 svör og eru vikmörkin frá 1,5 – 6%.

Athygli vekur að andstaðan er mest hjá ungum kjósendum á aldrinum 18 – 29 ára. Í þeim hópi eru 89% neikvæð gagnvart sameiningu. Minnst andstaðan er meðal íbúa 64 ára og eldri en þar eru samt 74% neikvæðir.

DEILA