Ísafjörður: fellt að taka á dagskrá tillögu um knattspyrnuhús

Tillaga meirihlutaflokkanna í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar um að taka á dagskrá skýrslu um fjölnota knattspyrnuhús og tillögu nefndar um byggingu hússins var felld á fundi bæjarstjórnar í gær. Málið var ekki á útsendri dagskrá fundarins og var því borin upp tillaga um að taka það með afbrigðum inn á dagskrá. Slíkt þarf aukinn meirihluta atkvæða eða 6 atkvæði af 9. Í listinn lagðist gegn afbrigðunum og féll því tillagan þar sem hún fékk aðeins 5 atkvæði en 4 greiddu atkvæði á móti.

Sigurður Jón Hreinsson, fulltrúi Í listans í byggingarnefndinni hafði bókað andstöðu við skýrslu nefndarinnar og tillögu hennar og boðað að skila eigin skýrslu til bæjarstjórnar. Sú skýrsla var ekki tilbúin og því lagðist Í listinn gegn því að taka málið fyrir að sinni.

Hafdís Gunnarsdóttir, formaður bæjarráðs sagði í samtali við Bæjarins besta að næsti reglulegi fundur yrði eftir tvær vikur en mögulega yrði boðað til aukafundar til þess að afgreiða málið fyrr. Hún sagði að það þyrfti að hefja vinnu sem fyrst við að fergja svæðið undir húsinu. Tillaga byggingarnefndarinnar er að verkið verði boðið út  í samræmi við fyrirliggjandi útboðsgögn.

Hafdís sagði að miðað væri við að kostnaðurinn við húsið fullbúið yrði ekki meiri en 380 milljónir króna. Til viðbótar kæmi svo 50 milljóna króna kostnaður við að fergja þannig að heildarkostnaður yrði um 430 milljónir króna.

Það er liðlega 100 milljónum króna lægri kostnaður við knattspyrnuhúsið en gert er ráð fyrir í fjárfestingaráætlun bæjarins og Hafdís Gunnarsdóttir sagði að ef það gengi eftir væri hægt að nota mismuninn til þess að kosta gervigras á núverandi grasvöll á Torfnesi, en kostnaður við það gæti verið um 120 milljónir króna.

 

DEILA