Ísafjörður: bæjarráð vill jarðgöng til Súðavíkur

Frá varnaraðgerðum á Súðavíkurhlíð í sumar. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar ályktaði um framkomna tillögu að fimmtán ára samgönguáætlun 2020 – 2034 og fimm ára áætlunina 2020 – 2024.

Bæjarráðið segir að eina leiðin til að tryggja öryggi séu jarðgöng til Súðavíkur. Þá vill bæjarráðið fá frekari skýringar á tillögu um veggjöld í öllum jarðgöngum.

 

„Bæjarráð fagnar þeirri ákvörðun stjórnvalda að setja aukið fjármagn í vegaframkvæmdir um allt land. Flýting framkvæmda við Dynjandisheiði mun hafa jákvæð áhrif á uppbyggingu atvinnulífs á Vestfjörðum og er Íslendingum öllum til hagsbóta. Á sama tíma telur bæjarráð vegskála milli Súðavíkur og Ísafjarðar til marks um skammsýni þar sem eina leiðin til að tryggja öryggi vegfarenda á svæðinu séu jarðgöng. Jafnframt kallar bæjarráð eftir nánari útlistun á áætlunum um veggjöld í jarðgöngum þar sem bæjarráð telur ekki boðlegt að íbúar þurfi að greiða veggjöld þegar aðeins er ein leið í boði milli byggðakjarna.“

DEILA