Ísafjarðarbær: Útboð á fjölnota knattspyrnuhúss samþykkt

Meirihluti bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að farið verði í útboð á fjölnota knattspyrnuhúsi á Ísafirði. Samkvæmt mati nefndar um byggingu fjölnota knattspyrnuhúss eru líkur á því að hægt verði að hefjast handa við byggingu hússins sumarið eða haustið 2020 og að það klárist um áramót 2020/2021. Þetta miðar við núverandi tímasetningu og að útboð fari af stað sem fyrst.

Húsið sem nefndin lagði til að verði byggt er 50×70 metra einangrað og upphitað hús. Samkvæmt tillögu verður boðið út á evrópska efnahagssvæðinu með skilyrðum um hámarksverð að upphæð 380.000.000 kr. og að húsinu verði skilað fullbúnu. Lagt er til að í útboðinu verði ákveðin skilyrði um útbúnað, svo sem geymslu, lýsingu, gervigras, hlaupabraut og fleira, en einnig að hægt verði að bjóða í valkvæða eiginleika, svo sem hljóðkerfi, áhorfendabekki og klifurvegg. Útboðsgögn hafa verið útbúin í samstarfi við Ríkiskaup.

 

þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Ísafjarðarbæ, sem var að berast, en bæjarstjórnarfundur var haldinn nú síðdegis þar sem þetta var samþykkt.

DEILA