Ísafjarðarbæ: felli rniður gatnagerðargjöld af nýbyggingum

Glæsileg nýbygging á Suðureyri. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að fella tímabundið niður gatnagerðargjöld, af nýbyggingu íbúðarhúsnæðis, á lóðum við þegar tilbúnar götur í sveitarfélaginu sem ekki þarf að leggja frekari kostnað í. Ákvæðið tekur gildi eftir samþykkt þess í bæjarstjórn og varir til 1. nóvember 2020. Ákvæðið er ekki afturvirkt og miðað er við að framkvæmdir hefjist innan þessara tímamarka.

Tillagan verður lögð fyrir næsta bæjarstjórnarfund og má búast við því að hún verði samþykkt.

Samkvæmt upplýsingum Tinnu Ólafsdóttur, upplýsingafulltrúa Ísafjarðarbæjar eru lóðirnar sem hægt er að sækja um eru í Tunguhverfi, Suðureyri, Hnífsdal og Flateyri. Engar einbýlishúsalóðir eru lausar í öðrum hverfum bæjarins samkvæmt núverandi skipulagi.

Gatnagerðargjöld á einbýlishús eru 19.721 kr. á hvern fermetra. Miðað við það myndu gatnagerðargjöld af 120 fermetra einbýlishúsi verða um 2,4 milljónir króna. Þessi gjöld falla niður næsta árið samkvæmt tillögu bæjarráðs.

DEILA