Hrafnseyrargöng eða Dýrafjarðargöng

Jónas Guðmundsson, sýslumaður á Vestfjörðum og forsvarsmaður Samgöngufélagsins hefur sent bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar erindi um nafn á jarðgöngunum milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar.

leggur hann til að bæjarstjórnin leggi til við Samgönguráðherra að í stað þess að notast við nafnið Dýrafjarðargöng verði göngin kennd við Hrafnseyri við Arnarfjörð og nefnd Hrafnseyrargöng.

Færir Jónas eftirfarandi rök fyrir nafngiftinni:

  1. Hrafnseyri skipar ríkan og verðskuldaðan sess í sögu Vestfjarða og þjóðarinnar allrar. Þar bjó á 12. öld Hrafn Sveinbjarnarson, læknir og mannvinur, sem eyrin er kennd við og þar fæddist 17. júní 1811, Jón Sigurðsson, eins og allir Íslendingar ættu að vita, jafnan titlaður forseti,  „óskabarn Íslands, sómi þess, sverð og skjöldur.” Telur Jónas hættu á að nafnið falli smám saman í gleymsku eftir að hætt verður að nota það í tengslum við samgöngur.
  2. Það væri í fullu samræmi við viðmiðanir Vegagerðarinnar að kenna göngin við Hrafnseyri eða sama stað og fjallvegurinn sem fyrir er og þau leysa af hólmi.
  3. Hrafnseyrarheiði tengir saman Arnarfjörð og Dýrafjörð líkt og göngin munu gera og skírskotaði því nafnið Hrafnseyrargöng til fjarðanna beggja .
  4. Hrafnseyri er í um 12 til 13 km fjarlægð frá gangamunnanum Arnarfjarðarmegin og því tiltölulega skammt undan.
  5. Nafnið Hrafnseyrargöng er lítið eitt styttra og þjálla en Dýrafjarðargöng.

Loks vísar Jónas Guðmundsson til greinar Jakobs Hjálmarssonar frá 7. júní 2019 sem nálgast má á vefslóðinni https://www.bb.is/2019/06/hrafnseyrargong/ þar sem mjög skýr og greinargóð rök fyrir þessari nafngift koma fram. 

Bæjarráð þakkaði bréfritara fyrir erindið. En varð ekki haggað og bókað er að það sé „einhuga um að göngin verði nefnd Dýrafjarðargöng eins og þau hafa verið kölluð.“

 


DEILA