Hornstrandafriðland: skipulagsnefnd vill segja upp samkomulagi við Umhverfisstofnun

Hesteyri.

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar leggur við bæjarstjórn að núgildandi samkomulagi um byggingar- og framkvæmdarleyfi sem dagsett er mars 2004, verði sagt upp á grundvelli afstöðu Umhverfisstofnunar til samkomulagsins. Ástæðan er sú að Umhverfisstofnun telur að á grundvelli samkomulagsins við Ísafjarðarbæ um taki Umhverfisstofnun ákvörðun um leyfi á undan Ísafjarðarbæ og að ákvarðanir bæjarins taki mið af því sem Umhverfisstofnun hafi ákveðið áður. Umhverfisstofnun telur því skýrt að öll mannvirkjagerð, jarðrask og önnur breyting á landi allt að 60 föðmum frá stórstraumsfjörumáli sé háð leyfi Umhverfisstofnunar.

Umhverfisstofnun vísar í auglýsingu um friðlýsingu svæðisins sem gerð er með stoð í lögum um náttúruvernd nr 60/2013  skilningi sínum til stuðnings. Telur stofnunin að framkvæmd sem ekki hafi fengið framkvæmdaleyfi Umhverfisstofnunar sé óheimil og geti leitt til stöðvunar og sektar. Undir svarbréf umhverfisstofnunar rita Sigrún Ágústsdóttir, sviðsstjóri og Kristín Ósk Jónasdóttir, sérfræðingur.

Ísafjarðarbæ hins vegar vísar til laga frá 2010 um mannvirki sem feli sveitarfélögum að gefa út framkvæmdaleyfi. Fyrr á árinu vann lögmannsstofnan Juris sfl minnisblað fyrir Ísafjarðarbæ og þar er komist að þeirri niðurstöðu að Ísafjarðarbæ  fari með útgáfu framkvæmdaleyfa en að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar.

Svarbréf Umhverfisstofnunar var til umræðu í skipulagsnefndinni að fengu áliti stofnunarinnar og telur nefndin rétt í ljósi afstöðu Umhverfisstofnunar að segja umræddu samkomulagi upp og vill árétta í nýju samkomulagi að Ísafjarðarbær fari með valdheimildir varðandi framkvæmdaleyfi á friðlandinu á Hornströndum, að því er Sigurður Mar Óskarsson, formaður nefndarinnar sagði við Bæjarins besta.

Hafdís Gunnarsdóttir, formaður bæjarráðs sagði það ekki koma til greina að bærinn gefi eftir lögboðið valdsvið sitt í málinu.

DEILA