Hólmavík: Viktoría hættir sem kaupfélagsstjóri

Viktoría Rán Ólafsdóttir sagði upp í vor störfum sem kaupfélagsstjóri Kaupfélags Steingrímsfjarðar Hólmavík og er uppsagnarfrestur liðinn. Matthías Lýðsson, formaður stjórnar kaupfélagsins staðfesti þetta í samtali við Bæjarins besta. Hann sagði að Viktoría myndi starfa áfram þar til eftirmaður hennar hefur verið ráðinn. Starfið hefur ekki verið auglýst og sagði Matthías að svipast hafi verið um eftir nýjum kaupfélagsstjóra.

Fjárhagur kaupfélagsins hefur orðið fyrir áfalli við nauðasamninga Hólmadrangs ehf og sagði Matthías að allur rekstur kaupfélagsins væri til skoðunar. Hins vegar hafi ekki verið teknar neinar ákvarðanir um að loka eða selja útibú kaupfélagsins á Drangsnesi.  Hinu væri ekki að leyna að rekstur kaupfélagsins hafi verið erfiður.

Matthías Lýðsson sagði að stjórn kaupfélagsins væri þakklát starfsfólki Hólmadrangs ehf og kröfuhöfum fyrir dugnað og sanngirni. Sagði hann að allir kröfurhafar hefðu samþykkt nauðasamningan þrátt fyrir að fá aðeins 40% af kröfum greiddar. Kaupfélagið varð að færa niður eignarhlut sinn í Hólmadrangi úr 50% í 20% sem ekki væri létt verk en á móti kemur að nýir eigendur hafi komið að fyrirtækinu sem vilji reka það  á Hólmavík. „Við höfðum það að leiðarljósi að Hólmadrangur er stærsta fyrirtækið á Hólmavík og þar var forgangsatriði að koma því á fætur og hugsa þar sem um hag starfsmanna“ sagði Matthías.

DEILA