Hamrar sunnudag: Í hvílu minni um nótt

Á sunnudaginn kl 17 munu Margrét Hrafnsdóttir, söngkona og Guðrún Dalía Salómonsdóttir, píanóleikari vera með ljóðatónleika í Hömrum Ísafirði sem þær nefna í hvílu minni um nótt.

Í kynningu segir að þær hafi kynnst í Stuttgart þar sem þær báðar numu við tónlistarháskólann. Sameiginlega ástríða þeirra fyrir tónlist koma þeim saman í margvísleg verkefni og hafa þær unun af að kynna sér óþekkta tónlist og fara óþekktar slóðir.  Eftir að þær báðar fluttu heim aftur hafa þær unnið saman að ýmsum tónleikum og ma frumflutt lög eftir  Ingibjörgu Azima Guðlaugsdóttur. Rauði þráðurinn á þessari efnisskrá eru Ljóðaljóðin, munúðarfullir textar úr Gamla testamentinu þar sem þrá elskenda er lýst. Ekki furða að margt tónskáldið hafi fundið þörf til að semja við slíkan óð.

Þá segir: „Í þessari efnisskrá tvinnum við saman íslensku tónmáli við erlent. Ljóðaljóð Páls Ísólfssonar eru magnaðar tónsmíðar og tekst honum að hefja textann og lita hann þannig að hlustandinn hverfur til annarra heima. Það er einmitt sú áskorun tónskálda sem takast á við ljóð því ljóðaformið er eitt tærasta listform sem til er. Verði tónlistin ofhlaðin missir hlustandinn af textanum.
Ravel er þekktur fyrir einstakan tærleika þó tónsmíðar hans séu impressíónístískar. Í Deux Mélodie Hébraïque kemst hlustandinn strax á fornar og erlendar slóðir og leikur hann sér að því að lita hana með arabískum blæ.
Schubert er tónskáld sem við öll lítum upp til enda kom hann ljóðaforminu upp í hæstu hæðir. Í ljóðum Suleika tekst honum að lýsa þránni sem fylgir fjarlægðinni og færa austur og vestur nær hvert öðru sem Goethe vildi einmitt með þessum ljóðum.
Hér er um að ræða óvenjulega efnisskrá með tónsmíðum sem sjaldan heyrast opinberlega. Mjög ólíkum tónskáldum frá mismunandi tímum og með gjörólíkan uppruna er hér stefnt saman svo úr verður tónlistarveisla.“

Tónleikarnir eru styrktir af Tónlistarsjóði.

Miðaverð: 2.900,- en 2.500,- fyrir nemendur og eldri borgara.

DEILA