Hafna lögþvingaðri sameiningu sveitarfélaga – hrepparígur

Bæði bæjarráð Bolungavíkur og sveitarstjórn Súðavíkurhrepps hafna lögþvingaðri sameiningu sveitarfélaga. Bæjarráðið segir í ályktun sem það samþykkti í síðustu viku og verður lögð fram á Fjórðungsþingi Vestfirðinga um næstu helgi, að það skorar á haustþing Fjórðungssambandsins „að hafna alfarið hugmyndum um lögþvingaðar sameiningar sveitarfélaga á Íslandi og hvetja ráðamenn til þess að virða hagsmuni og sjálfsákvörðunarrétt í eigin málum. Sameining sveitarfélaga  getur verið ákjósanleg og skynsamleg en slíkt verðir að gerast á forsendum  þeirra sem um ræðir.“

Sveitarstjórn Súðavíkur segir í bókun sem gerð var á föstudaginn að Súðavíkurhreppur áréttar að sveitarstjórn leggst alfarið gegn lögþvingaðri sameiningu og þeirri aðferðafræði sem boðuð er til að knýja á um sameiningu minni sveitarfélaga.
„Súðavíkurhreppur lýsir því hins vegar yfir að sveitarfélagið er tilbúið til viðræðna við öll
þau sveitarfélög sem hyggja á sameiningu, með vísan til íbúamarks í þingsályktun um
stefnumótandi áætlun ríkisins í málefnum sveitarfélaga á yfirstandandi þingi.“

hrepparígur, illmælgi og sundurlyndi 

Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ gerir sameiningu sveitarfélaga að umtalsefni í færslu á facebook síðu sinni í síðustu viku. Þar ber hann saman nálgun Austfirðinga á sameiningu sveitarfélaga sem ræði málin á forsendum íbúanna og einblíni á það sem sameinar, ekki það sem sundrar og segir orðrétt:

„Ég sé okkur ekki leika þetta auðveldlega eftir hér fyrir vestan. Og þó. Kannski á sunnanverðum Vestfjörðum og Ströndum en síst hér á norðanverðum Vestfjörðum. Því miður. Ég sé okkur ekki ná þessum austfirsku hæðum og hefja umræðuna yfir hrepparíg og illmælgi. Ég ætla ekkert að fara í felur með það að sundurlyndi fólks hérna fyrir vestan hefur valdið mér vonbrigðum síðan ég flutti aftur heim.“

DEILA